Heilagir skuggar

Sigurður Árni Sigurðsson

Sigurður Árni Saint Genevieve og Notre dame de Montmartre

Við eigum okkur öll eins konar hliðarsjálf sem birtist helst þegar sólin skín og fylgir okkur þá hvert sem við förum. Skugginn er jafn persónulegur og líkami okkar; hann er hluti af okkur en þó utan við okkur. Meðal flestra þjóða hefur þetta orðið að umhugsunarefni og hefur fólki þótt að ýmislegt þurfi að varast. Í Kína verður maður að passa að skugginn varpist ekki á opna gröf, því þá gæti maður dáið. Galdramenn geta náð valdi á skugga okkar og víða hefur fólk varast að vera á ferð úti um miðjan dag því þá er skugginn lítill og veikur, og maður því berskjaldaðri en að morgni eða síðdegis. Samt er skugginn líka varhugaverður. Hann er skuggahliðin á okkur – skuggalegur fylgisveinn sem við getum ekki hrakið frá okkur. Margir hafa talið að sálin búi í skugganum enda hverfur hann á braut þegar við deyjum og erum grafin – þegar okkur er „stefnt inn í skugganna fjölmenna ríki“, eins og Jón Helgason orti. Hinir framliðnu eru skuggar. Í teikninámi er nemendum hins vegar snemma kennt að „skyggja“ til að myndin verði „lifandi“ og fái á sig sterkari veruleikablæ. Myndir án skugga eru bara tvívíðir og líflausir fletir. Það eru margar hliðar á skugganum.

Sigurður Árni Sigurðsson hefur lengi verið hugfanginn af skuggum og skoðað þá frá ýmsum hliðum í málverkum sínum og skúlptúrum. Með skuggum verður til rými og Sigurður Árni hefur meðal annars beitt þeim til að búa til rými milli strigans og málaðra flata. Hann hefur líka málað myndir sem sýna bara skuggann af hlutnum en ekki hlutinn sjálfan. Þau verk trufla skynjunina því manni er hætt við að fara að horfa í kringum sig til að sjá hvað varpi skugganum: Ef aðeins skugginn sést á veggnum hlýtur myndefnið að standa við hliðina á mér í sýningarsalnum.

Málið flækist enn frekar ef margir ljósgjafar eru í rýminu því þá getur sami hlutur varpað mörgum skuggum í einu og það virkar undarlega á mann. Þetta getur valdið vandræðum á höggmyndasýningum og þar sem líkneski eru höfð í kirkjum og hofum, til dæmis í kaþólskum kirkjum. Í nýjustu verkum sínum fæst Sigurður Árni við þetta vandamál: Styttan af dýrlingnum varpar tveimur ólíkum skuggum og ef við tökum styttuna úr myndinni, eins og Sigurður Árni gerir, eru eftir tveir ólíkir dýrlingar. Í kaþólskri trú er oft ekki langt á milli myndar og þeirrar andlegu veru sem myndin sýnir, enda fer fólk til kirkju og biður bænir við myndirnar. Kirkjuþing hafa verið haldin til að greiða úr þessari flækju en með takmörkuðum árangri. Hvar er þá dýrlingurinn? Á sýningu Sigurðar hefur hann búið til styttu úr skuggunum og í sýningarrýminu snýst hún á stöpli og varpar skuggum í allar áttir. Þeir sem koma á sýninguna geta svo séð skuggana af sjálfum sér innan um. Kannski er það eins konar tilbeiðsla?

Skuggar eru raunverulegir, og þó ekki, en samt. Það eru tvær hliðar á hverju máli og stundum er skuggahliðin áhugaverðari.

Jón Proppé

Artist: Sigurður Árni Sigurðsson

Date:

09.12.2023 – 20.01.2024

Location:

Y Gallerí

Hamraborg 12, 200 Kópavogur, Iceland

Tags:

Capital AreaExhibition

Opening hours:

Saturdays 14-17

Follow us on Facebook – Instagram

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, chromo
Dozie, Precious
Perpetual Motion
Islensku myndlistarverdlaunin 2023
Um okkur