Áhrif og vægi veggtexta á myndlistarsýningum

04.08.2022
The Relevance:Marianna Simnett, The Severed Tail, 2022.

Það er hefð fyrir því í myndlistarheiminum að sýningar og mörg listaverk reiði sig á texta sem leiða áhorfandann inn í verkin. Textaskýringarnar sem fylgja bókmenntum og kvikmyndum gegna því hlutverki að kynna efnið fyrir neytendum, svo þeir geti ákveðið hvort þeir vilji lesa bókina eða sjá myndina. Í myndlist er venjan hins vegar sú að eftir að áhorfendur hafa upplifað verkið geti þeir lesið greiningu til að dýpka skynjun sína á verkinu. Veggtextar á myndlistarsýningum eru mismunandi, mislangir og misgreinandi. Á 59. útgáfu Feneyjar tvíæringsins eru þeir ítarlegir og standa höfundarlausir. Textarnir á alþjóðlegu listsýningunni, Mjólk draumanna, undir sýningarstjórn Cecilia Alemani vöktu áhuga minn þar sem þeir lituðu upplifun mína á verkunum sjálfum.

Einn af pólitískum listamönnum tvíæringsins í ár, P. Staff, sýnir í Giardini myndbandsverkið On Venus (2019). Fyrir ofan innganginn á sýningarsalnum er viðvörun sem líkist penni útfærslu af útgönguskilti, drapplitað með áletruninni: „Viðkvæmt viðfangsefni//blikkandi ljós“. Ég stíg inn um tjaldið í neon-litaða strobe ljós maníu. Ljósin og furðulegir litir myndarinnar afbaka hana svo að augun ná oft ekki að greina að fullu hvað þau sjá.

The Relevance:P. Staff, On Venus, 2019.

P. Staff, On Venus, 2019.

Það fer eftir því hvenær áhorfendur ganga inn í salinn hvort myndaramminn sýni skýrt viðfangsefni myndarinnar eða ekki. Fljótlega koma þó í ljós litríkir og blikkandi myndarammar sem sýna skrokka af kúm sem eru sagaðir í tvennt. Áhorfendur sjá nærmyndir af verkfærum eða langskot úr sláturhúsi, nærmyndir af hænsnaklóm og langskot af ýmsum líkömum. Bjögun myndefnisins hlífir áhorfendum, ólíkt beinskeyttum heimildamyndum um slátrun, því þegar blóðið rennur í neonbleiku, bláu eða grænu, kallar það ekki fram sömu hryllingstilfinninguna. Þessi bjögun myndefnis felur einnig óttann í augum dýranna. Ólíkt sumum vegan heimildarmyndum getur myndbandið því varla talist tilfinningaklám.

Þótt bjögun myndefnisins hlífi áhorfandanum við hryllingi innihaldsins, þá eykur þessi sama bjögun vanlíðan áhorfandans. Verkið er ekki auðvelt áhorfs. Myndbandið verður óhugnanlegt og kemur gestum fyrir sjónir sem bæði hrottalega raunverulegt og framandi. Hið pólitíska viðfangsefni sem hér er til umræðu er sú hugmyndafræðilega fjarlægð sem við höfum skapað milli manna og annarra dýra. Með því að beita sjónrænni bjögun verður myndbandið að óþægilegri áminningu um þá bjöguðu hugmyndafræði sem við notum til að réttlæta slátrun dýra. Útkoman er bæði skýr og kraftmikil. Í Arsenale stingst loðinn hali fram undan veggtjöldum eins sýningarrýmisins:

The Severed Tail (2022) eftir Marianna Simnett. Ég leita að viðvörunarmerki, drapplitaðri “varúð” en sé hvergi skilti, ef til vill á skottið sjálft að gegna sem viðvörun. Það er kaldhæðnislegt því loðið skottið lokkar að börn á reiki með forráðamönnum sínum. Ég geng inn í illa lyktandi herbergi. Myndbandið er kynferðislegt í eðli sínu. Hér er leikið með valdadýnamík og óþægilegar sýnir. Einn ælir upp hrognum í lófa sér. Hrognin á að setja í nafla annars sem opnast eins og svöðusár. Þetta fær mig til að halda að lyktin sé hluti af verkinu, að kannski hafi listamaðurinn sett eitthvað hæg-rotnandi í þennan loðna hala.

Allt herbergið er þakið loðnum gervifeldi og gestir liggja frjálslega á skottinu á meðan þeir horfa á myndbandið. Söguþráður myndarinnar fylgir aðalpersónu sem er í gríslingalegu-gervi og öðru dýrafólki í kynferðislegri valda-togstreitu. Efni myndbandsins auk fagurfræði herbergisins fær vafalaust marga áhorfendur til að tengja myndina við kink jaðarhóp loðbolta eða loðninga, betur þekkt á ensku sem furries.

Við listunnendur sem eru menningarlega með á nótunum, tökum fagnandi á móti ólíkum kynferðum og blætum. Þess vegna gat ég ómögulega skilið þá listrænu ákvörðun að tengja verk sem skapar vettvang fyrir kynferðislegan minnihlutahóp við “eitthvað rotið.” Ég leitaði svara í veggtextanum. Þar kemur í ljós að verkið er feminískt ferðalag kven-gríslings gegnum fenjasvæði umbreytinga og löngunar. Út frá þessum upplýsingum dreg ég þá ályktun að ekki bara sé lyktin ómeðvituð heldur sé það einnig óvart að myndbandið líkist fantasíuheimi loðbolta.

Áður en ég geng inn í annan sýningarsal les ég smágerða viðvörun um „viðkvæmt efni.“ Myndbandið er Helgi vorsins (Le Sacre du printemps, 2021) eftir Zheng Bo. Á skjánum má sjá nakið fólk á milli trjáa og ég velti því fyrir mér hvort það þurfi einungis nekt í náttúrunni til að fá viðvörunarstimpil á verk. Myndbandið þróast yfir í að fólk stynji og nuddi sér upp við trén. Mér leiðist verkið svo að ég hugsa að ég skilji ekki innihald þess. Í óræðileika sínum er myndbandið opið fyrir hinum ýmsu pólitísku túlkunum; verkið gæti sótt innblástur í hippahreyfinguna og trjá-faðmlög umhverfissinna, eða myndbandið gæti verið að skapa vettvang fyrir minnihlutahóp kynhneigðar. Kannski liggur tilgangur og snilld verksins einmitt í þessu, en ég er ekki viss, svo ég les textann.

The Relevance:Marianna Simnett, The Severed Tail, 2022.

Marianna Simnett, The Severed Tail, 2022.

The Relevance:Zheng Bo, Le Sacre du printemps (Tandvärkstallen), 2021.

Zheng Bo, Le Sacre du printemps (Tandvärkstallen), 2021.

Textinn er drekk-hlaðinn artspeak frösum eins og:

“Eco-sexual curiosities.” sem mætti þýða sem “Vistfræðileg kynferðisleg forvitni”

“Post-human vibrancy.” sem gæti útlagst sem “lífleiki í kjölfar póst-húmanisma.”

Auk setninga eins og “listamaðurinn hefur helgað sig allt umlykjandi fjöltegunda-samböndum og tekur þátt í daglegum helgisiðum sem leggja áherslu á umhyggju milli allra lífvera.”

Svo virðist vera sem grunn túlkun mín á verkinu sé ekki langt frá hugmyndum listamannsins, þó mig hafi skort uppskrúfaðan orðaforðann. En sú hugmynd að plöntur og menn tengist böndum sem við eigum eftir að rækta nánar í framtíðinni er meira spennandi en verkið sjálft.

Þegar ég kem heim les ég loks veggtextann, sem ég ljósmyndaði, um verkið On Venus til að staðfesta pólitíska greiningu mína á verkinu. Ég les: „necropolitics“ „áhrifakenning“ „listamaðurinn skoðar sambönd milli líkama, vistkerfa, og stofnana frá hinsegin og trans sjónarhorni“. Ég les aftur síðustu fjögur orðin. Auðvitað. Ofbeldi gegn dýrum hefur lengi verið vinsæl samlíking yfir ómannúðlega meðferð samfélags okkar á minnihlutahópum. Aðalatriðið er það sama; við samþykkjum ofbeldi á ýmsum líkömum vegna þess að samkennd okkar nær ekki yfir þau okkar sem þykja “framandi.” Með þessu nýja sjónarhorni sem ég fékk við lestur veggtextans, verður viðkvæmni og fáránleiki líkamans meira áberandi í myndbandinu.

Í skynjun minni á On Venus skorti mig hinsegin- og trans þættina en áttaði mig samt á tilfinningunum og hugmyndafræðinni í verkinu. Myndbandið stendur eitt og sér sem mjög kraftmikið pólitískt listaverk en að viðbættum veggtexta og greinum um verkið, dýpkaði skynjun mín. Til samanburðar var lausleg túlkun mín á Helgi vorsins óinnblásin en nokkuð nálægt ætlun listamannsins. Samt sem áður kveikti sýningartextinn meiri áhuga minn á kenningunni á bak við verkið en á verkinu sjálfu. Upplifun sem eflaust margir kannast við eftir að yfirgefa myndlistarsýningu. “Rangtúlkun” mín á The Severed Tail gerði það að verkum að mér finnst verkinu sjálfu um að kenna. Veggtextinn gæti hafa leiðrétt misskilninginn en hann bjargar ekki verkinu.

The Relevance:P. Staff, On Venus, 2019. Photograph: David Levene

P. Staff, On Venus, 2019. Ljósmynd: David Levene

Til að draga saman, má segja að ef ég er heilluð af verki, leita ég í skriflegar upplýsingar um verkið. Samt getur skrifleg skýring ein og sér ekki fengið mig til að öðlast áhuga á verkinu sjálfu. Ef hugmyndin eða fræðin á bak við verkið sjálft er sterkari en framsetningin þá hefði hugmyndin betur notið sín í skrifum, skapandi eða fræðilegum. Jafnvel þótt að í þeim þremur dæmunum sem ég hef fjallað um hér að ofan hafi textinn fengið mig til að skilja verkin betur, er ég samt á þeirri skoðun að veggtextum hafi almennt verið ofaukið á sýningunni.

Í þeim dæmum sem ég hef reifað eru listaverkin sjálf pólitísk. Þess vegna virðist textinn síður þvinga upp á verkin merkingu, þeim til virðisauka. Engu að síður fær maður stundum á tilfinninguna að verið sé að selja manni „nýju fötin keisarans.“ Textarnir ýja að því, meðvitað eða ekki, að gallinn liggi ekki í verkinu sjálfu heldur í skynjun áhorfandans á því. Að vitsmunum sýningargesta sé um að kenna, að þeir „fatti ekki verkið“.

Ég skil hvað heillar við pólitískt hlaðna sýningartexta. Listamenn og listunnendur kljást oft við það að sýna fram á tilgang eða mikilvægi listar og því er freistandi að slá um sig eða hreinlegt brynja sig með fáguðum orðaforða (e. artspeak.) Textarnir nýta sér gjarnan heimspeki eða pólitísk málefni til að færa rök fyrir tilvist listaverka. Það er því kaldhæðnislegt að einmitt þessi tilhneiging – að vísa í pólitíska afstöðu sem á að “skapa vettvang fyrir alla” – sé tjáð með orðaforða sem er fáum aðgengilegur. (isl. inngilding/e. inclusion)

Þar að auki er listheimurinn nátengdur markaðnum og því er algengt að þau pólitísku listaverk sem fá vettvang eða njóta vinsælda tjái pólitísk málefni sem hafa þegar hlotið samfélagslega viðurkenningu. Auðvitað er list mikilvæg til að fagna pólitískum sigrum og einnig í að endurskoða og horfast í augu við sögu okkar. En mig langar að velta fyrir mér annarri nálgun pólitískrar afstöðu innan listheimsins.

Á fyrirlestri á vegum tvíæringsins talaði Sebastiano Maffettone sem er prófessor í pólitískri heimspeki, um pósthúmanisma. Hann hóf fyrirlesturinn á því að fullyrða að list hafi í gegnum tíðina verið skrefinu á undan heimspeki að spá fyrir um hugmyndafræði framtíðar. Aðallega vegna þess að list kannar önnur svið og skilningarvit en rökfræði. Maffettone fannst eigin yfirlýsing svo augljós að ég kokgleypti kenninguna strax. Eitt dæmi sem hann tók er af fyrrnefndri sýningu, Mjólk draumanna. Áhersla sýningarstjórans Alemani á súrrealisma, sem blómstraði í Evrópu á millistríðsárunum, er nú verið að tengja við heimspeki pósthúmanisma. Þessi yfirlýsing Maffettone vakti óróleika tilfinningu innra með mér. Þessi tilfinning spratt upp úr því að sýningartextar eru þegar að greina og gefa verkum fyrirframgefna merkingu. Samtímalistaverk eru frá upphafi bundin við skilgreiningu sýningartexta og því ekki skilin eftir jafn opin til túlkunar. Þar sem stór hluti listar í dag styðst við heimspekileg hugtök og pólitísk málefni er lítið rými fyrir list sem kannar önnur svið eða skilningarvit en rökhugsun eða skýrar tilfinningar. Ef framtíðar heimspeki á að byggja á núverandi listastefnum, þá mun hún þurfa að vinna með fyrir fram ákveðnar merkingar verka. Auk þess koma pólitískar breytingar yfirleitt á eftir heimspekilegri uppljómun. Ef tilfinning mín er rétt, þá kemur listsköpunin fyrst, síðan heimspekin og breytingar í pólitísku landslagi allra seinast.

Þessi svartsýnisspá mín er í þeim tilgangi að hvetja til þess viðhorfs að list ætti ekki að þurfa textaskýringu. Að pólitískt mikilvægi listar sé ekki endilega að finna í fyrir fram ákveðnum hugtökum og stefnum. Heldur megi list líka sækjast eftir því að vera innblástur fyrir komandi heimspeki, í staðin fyrir að endurspegla núverandi pólitísk landslag. Að í stað þess að tækla pólitíska sigra samtímans að verða kveikja að hugmyndum sem valda samfélagslegum breytingum.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, chromo
Dozie, Precious
Perpetual Motion
Islensku myndlistarverdlaunin 2023
Um okkur