Fréttir

2025_3005_sequences_web_04-1.jpg

Sequences XII: Pása

Tólfti Sequencestvíæringurinn, Sequences XII:Pása, fer fram dagana 10.–20. október 2025 í Reykjavík.

Hátíðin í ár leiðir saman fjölbreyttan hóp innlendra og erlendra listamanna og lagt er upp með að kanna hvað það þýðir að upplifa og skapa „hægt”. Sýningarstjóri Sequences XII, Daría Sól Andrews býður gestum að stíga út úr amstri daglegs lífs og taka þátt í tíu daga dagskrá sem spannar sýningar, gjörninga, fyrirlestra, gönguferðir með leiðsögn og margt fleira. Hátíðin býður upp á rými til að staldra við, íhuga og upplifa list á öðrum hraða með aukinni dýpt, ró og meðvitund.

„Tólfta útgáfa Sequences er boð til allra um að hægja á. Allt í kringum okkur ýtir okkur áfram. “Pása” skapar rými fyrir ígrundun, meðvitund og taktbreytingu. Þegar við förum okkur hægar eykst meðvitundin um hið listræna, hvort sem um er að ræða athafnir eða verk. Við eigum auðveldara með að einbeita okkur, hugleiða, skynja, snerta og vera. Við eigum auðveldara með að skynja dýpt og dvelja í hljóðri athygli.Áherslur sýninganna eru tími, endurtekning, hlustun og nánd —þannig skapast rými fyrir kyrrð og núvitund ,“ segir Daría Sól Andrews, sýningarstjóri.

Þrjár megin sýningar mynda kjarna hátíðarinnar og hver þeirra nálgast tímann á sinn hátt:Upplifun tíma—verk og innsetningar sem byggja á tíma og skynrænni þátttöku og bjóða upp á hugleiðandi upplifun; Pólitískur tími—verk sem fjalla um upplifun og stjórnmál tíma, sérstaklega í tengslum við jaðarsetta samfélagshópa og sögur þeirra; Náttúrulegur tími—verk sem varpa ljósi á takt náttúrunnar, allt frá örsmáum vexti til jarðfræðilegra umbreytinga, og hvetja okkur til að sjá tímann á skala sem fer langt útfyrir þann mannlega.

Gestir eiga von á fjölbreyttri dagskrá með gjörningum, leiðsögnum listamanna og sýningum víðsvegar um Reykjavík og nágrenni. Á sýningunum fá gestir tækifæri til að hægja á, hlusta og tengjast.

Takið frá dagana 10.–20. október 2025.

Við hlökkum til að sjá ykkur á Sequences XII: Pása, helstu samtímalistahátíð landsins.

Listamenn og nákvæm dagskrá verða kynnt síðar á árinu.

Fyrir fjölmiðla fyrirspurnir:dorothea@sequences.is

Hönnun:Hrefna Sigurðardóttir

Instagram:instagram.com/sequences_art_festivalFacebook: facebook.com/SequencesArtFestivalVefsíða:www.sequences.is

Tilkynningar

Auglýst eftir umsóknum um vinnustofudvöl í New York

Myndlistarmiðstöð auglýsir til umsóknar þriggja mánaða vinnustofudvöl við International Studio & Curatorial Program í New York. Dvölin stendur frá júní – ágúst 2026.

Boðið er upp á rúmgóða einkavinnustofu sem listamaður hefur aðgang að allan sólarhringinn. Stofnunin skipuleggur reglulegar vinnustofuheimsóknir til gestalistamanna frá sýningarstjórum og fagfólki, heimsóknir á söfn, gallerí og sýningarstaði og fyrirlestra. 

Dvölin hjá ISCP býður upp á öflugt alþjóðlegt tengslanet, hvort sem um er að ræða alþjóðlega listamenn og sýningarstjóra, safnafólk, blaðamenn eða aðra sem sem starfa innan geirans. 

Styrkurinn er fyrir vinnustofudvölinni, en ekki framfærslukostnaði. Styrkurinn er fjármagnaður af Myndlistarráði.

Forval umsókna er í höndum Myndlistarráðs, en lokaval er í höndum fagnefndar ISCP. Umsóknarfrestur rennur út 19. maí 2025. Sækja má um 

Vinsamlega sendið eftirfarandi gögn með umsókninni:

- Ferilskrá, hámark 5 síður

- 10 ljósmyndir af verkum eða hlekkir á myndbönd. Taka skal fram titil, ártal, miðil og stærð eða lengd hvers verks. Auk þess má vera stuttur texti með lýsingu á verki.

- Ef við á má senda afrit af greinum eða gagnrýni, hámark 10 síður

- Ef við á má senda 2-3 afrit af sýningarskrám eða útgefnu efni

- Meðmælabréf

Auglýst verður aftur eftir umsóknum í mars 2026 fyrir árið 2027. 

Tilkynningar
Yann Toma

Yann Toma

Fyrsti gestur ársins 2025 í fyrirlestraröðinni Umræðuþræðir er franski listamaðurinn Yann Toma. Hann flytur fyrirlestur í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi, fimmtudaginn 23. janúar kl. 20:00.

Yann Toma er fæddur árið 1969. Hann er búsettur í París og New York þar sem hann starfar sem áheyrnarfulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum.

Verk hans einblína á orku og netkerfi, auk siðfræði. Hann staðsetur verk sín og hugsun á mörkum listrænnar og borgaralegrar tjáningar og setur þau í samhengi við yfirstandandi viðburði á sviði stjórnmála og fjölmiðla.


Verk eftir Yann Toma í eigu safneigna, svo sem Centre Pompidou og Neuflize’s banka, vekja spurningar um hugmyndir um orku, áhrif listar á samfélagið og mikilvægi siðfræði. Verk hans byggja á sameiginlegum framleiðsluferlum þar sem almenningur gegnir mikilvægu hlutverki í að skapa listaverkið og endurúthluta orku milli listamanns og áhorfanda. Meðal tilraunaverkefna Yann Toma sem snúa að endurúthlutun á Listrænni Orku milli listamanns og samfélags eru Dynamo-Fukushima (Grand Palais, 2011), Human Energy (Eiffel turninn, desember 2015), Human Greenergy (Forbidden City Beijing, október 2016), Planet Energy (Saatchi Gallery, 2023), Polarities (New York) & A Light-World (Paris, 2024). 


Yann Toma starfar sem prófessor við Paris 1 – Panthéon-Sorbonne háskóla og stundar rannsóknir við Institute of Arts Creation Theory and Aesthetics (ACTE) við sama háskóla. Hann stýrir meistaranáminu Arts & Vision (MAVI) og er einn stjórnanda meistaranáms í list og nýsköpunarstjórnun (Skóli lista – Skóli stjórnunar). Hann er samhæfingarstjóri í fjölmörgum rannsóknarverkefnum og áheyrnarfulltrúi við Institut des Hautes Etudes par les Sciences et la Technologie (IHEST).

Umræðuþræðir er samstarfsverkefni Myndlistarmiðstöðvar, Listaháskóla Íslands, og Listasafns Reykjavíkur. Í tengslum við verkefnið hefur allt frá árinu 2012 verið boðið hingað til lands fólki sem nýtur viðurkenningar í hinum alþjóðlega listheimi, ýmist á sviði listsköpunar, fræðastarfa eða sýningarstjórnunar. Lagt hefur verið upp með að skapa vettvang hérlendis fyrir alþjóðleg tengsl og umræður; gestirnir kynnast íslensku listalífi, stunda gestakennslu um leið og þau kynna eigin verk og hugðarefni með opnum fyrirlestrum í safninu.

Franska sendiráðið á Íslandi styrkir Umræðuþræði. Fyrirlesturinn fer fram á ensku. 

Tilkynningar
Ráðstefna: Staða myndlistarstefnunnar

Ráðstefna: Staða myndlistarstefnunnar

Menningarráðuneytið og Myndlistarmiðstöð standa fyrir ráðstefnu um stöðuna á aðgerðum í stefnu um málefni myndlistar á Íslandi. Aðalgestur ráðstefnunnar er Mikkel Bogh, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og fyrrum safnstjóri Þjóðarlistasafns Danmerkur og rektor Listaháskóla Danmerkur. Bogh var einnig fenginn sem erlendur sérfræðingur þegar unnið var að skýrslu um stöðu Listasafns Íslands, sem er ein af 18 aðgerðum myndlistarstefnunnar. Stefnan var sett fram í fyrra og gildir til 2030 og inniheldur átján aðgerðir. Mörgum þeirra er lokið, aðrar eru í vinnslu og á ráðstefnunni verður farið yfir stöðuna á þeim.



Ráðstefnan er haldin í Safnahúsinu á Hverfisgötu, mánudaginn 9. desember kl. 15:00-17:00.

Dagskrá

Kynning

Ragnheiður Vignisdóttir, fræðslu- og útgáfustjóri Listasafns Íslands

Ávarp

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarráðherra 

Aðalfyrirlesari

Mikkel Bogh, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla

Menningarstefna: Endurskilgreining á söfnum í Danmörku og nýr skilningur á safnastarfi og möguleikum þess.  

 Kaffi

Kynning á myndlistarstefnunni

Dorothée Kirch, formaður verkefnahóps um gerð myndlistarstefnuogHildur Jörundsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu menningar og fjölmiðla í menningarráðuneytinu

Aðgerðir Myndlistarmiðstöðvar

Auður Jörundsdóttir, forstöðumaður Myndlistarmiðstöðvar

Aðgerðir Listasafns Íslands

Ingibjörg Jóhannsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands 

Tilkynningar
Hildigunnur Birgisdóttir & Dan Byers, ljósmynd Ugo Carmeni

Feneyjatvíæringnum 2024 lokið

Lokadagur sýningar Hildigunnar Birgisdóttur, myndlistarmanns, í íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum er sunnudagurinn 24. nóvember. Sýningin, "Þetta er mjög stór tala, (Commerzbau)", hefur staðið frá 19. apríl og fengið mjög góðar viðtökur.

Sýningin verður sett upp í Listasafni Íslands í febrúar á næsta ári.

Hildigunnur og Dan Byers, sýningarstjóri, hafa veitt fjölda viðtala á sýningartímanum og má sjá úrval þeirra á vefsíðu Myndlistarmiðstöðvar. Meðal annars birti Louisiana safnið í Danmörku viðtal við Hildigunni á hinum vinsæla miðli sínum Louisiana Channel og CHANEL Connects tók viðtal við hana í þekktum hlaðvarpsþætti.

Á þessu sjö mánaða tímabili sem sýningin hefur staðið hafa íslenskir starfsnemar, listamenn og listfræðingar, gætt sýningarinnar, skrifað greinar um áhugaverðar sýningar á tvíæringnum og miðlað þeim í þættinum Víðsjá í Ríkisútvarpinu.

Næsti tvíæringur í myndlist verður haldinn í Feneyjum árið 2026. Undirbúningur er þegar hafinn, verið er að undirbúa kynningu á listamanninum sem tekur við kyndlinum af Hildigunni.

Tvíæringurinn í Feneyjum er einn mikilvægasti vettvangur samtímalistar á heimsvísu og það er mikill heiður fyrir þann íslenska myndlistarmann sem valinn er til þátttöku á tvíæringnum hverju sinni.

Ísland hefur tekið þátt í Feneyjatvíæringnum frá árinu 1960. Myndlistarmiðstöð hefur umsjón með íslenska skálanum fyrir hönd Menningar- og viðskiptaráðuneytisins. 

Feneyjatvíæringurinn

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5