Sumarsýning Safnasafnsins í Out There hlaðvarpinu

14.06.2024
safnasafnid

Listamennirnir og stjórnarmeðlimir Safnasafnsins Gunnhildur Hauksdóttir og Unnar Örn eru gestir í síðasta þætti Out There hlaðvarpseríunnar sem að Myndlistarmiðstöð hefur staðið að baki síðastliðin þrjú ár. Gunnhildur og Unnar ræða sumar sýningu safnsins sem opnaði nýverið, þar er um að ræða yfir 13 nýjar sýningar.

Safnasafnið, höfuðsafn íslenskrar alþýðulistar, var stofnað 17. febrúar árið 1995, af hjónunum Níelsi Hafstein myndlistarmanni og Magnhildi Sigurðardóttur geðhjúkrunarfræðingi. Hafa þau byggt upp myndarlega sýningaraðstöðu sem samanstendur af gamla barnaskólanum, sem jafnframt var þinghús Svalbarðshrepps, og kaupfélagshúsinu Gömlu-Búð sem reist var árið 1900 á Svalbarðseyri en flutt á safnlóðina 2006 og endurgert. Voru þessi tvö virðulegu hús síðan tengd saman með glæsilegri viðbyggingu og safnið opnað í núverandi mynd 2007 með 10 misstórum sölum og alls 474 fermetra sýningarrými. Stofnendum Safnasafnsins hefur á tveimur áratugum tekist það sem ólíklegt þótti, að færa alþýðulistina af jaðrinum inn að miðju og lokka jafnframt skólaða nútímalistamenn til heilladrjúgs samstarfs.

Í þættinum er meðal annars fjallað um eftirfarandi sýningar:

Útsala með verkum Arnars Herbertssonar, sýningin er sýningastýrð af Unnari Erni. Grafíkverkin frá þessu tímabili í listferli Arnars Herbertssonar eru senur þar sem viðfangið er manneskjan, ráðvillt og veikburða í vélvæddum heimi tækni og sölumennsku. Umbrot sálarlífsins, innri togstreita og viðkvæmni manneskjunnar voru Arnari hugleikin. Verkin minna á óræðan draum, þar sem dreymandinn er ófædd vera sem hniprar sig saman í þeirri von að öðlast skjól, til þess eins finna takt til að halda ráðvillt áfram ferðalagi sínu í miskunnarlausum heimi sölumennskunar. Djúpþrykk frá 1967-1971, endurprentuð af Joe Keys á þessu ári.

Fagurfræði skynfæra og lystisemda sem er sýningastýrð af einum af stofnaðilum safnsins Níels Hastein. Sýningunni er ætlað að virkja skilningarvitin, tengja saman hluti, form og liti með leiðarstefjum, tilvísunum og sjónlínum. Hún vekur spurningar um hversdagsleg gildi og frumlegar útfærslur verkanna. Virkja hugarflugið með áherslu á kímni, bjartsýni, langanir, reynslu og tilfinningar. Með jákvæðu hugarfari gæti niðurstaðan legið í augum uppi: Það er gott að halla eyra að fólki sem hefur munninn fyrir neðan nefið!

Sýningarnar Nína Óskarsdóttir: Uppspretta, Jasa Baka: Sem kom í gegn og Svava Skúladóttir: Heimilisguðir sem eru allar sýningastýrðar af Gunnhildi Hauksdóttur. Gunnhildur útskýrir fyrir Becky og Tinnu hvernig að sýningarnar eiga í óræðu samtali hvor við aðra þó að allar sýningarnar eru kynntar sem einkasýningar listamannanna.

ninaoskars
nielshafsteins
svava
arnar herberts
gunnhildur

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Perpetual Motion
Um okkur