Upprennandi norrænir listamenn á Market Art Fair

13.05.2023

Stockholm Art Week er í fullum gír þessa dagana með fjölbreyttum viðburðum, þar með talið Market Art Fair sem fer fram 12-.14 maí á tveimur stöðum í Stokkhólmi.

Í ár býður Market Art Fair upp á nýjan hluta sem ber yfirskriftina „Market Debut“ í Spritmuseum. Þar er lögð áhersla á 13 upprennandi norræna listamenn sem sjö gallerí kynna. Gallerí Þula, stofnað 2020, tekur þátt í nýja hlutanum og kynnir þar tvo listamenn: Kristínu Morthens og Áslaugu Írisi Katrínu Friðjónsdóttur. Báðir listamennirnir hafa sýnt af krafti hér á landi undanfarin ár og fengið jákvæðar undirtektir. Önnur gallerí sem sýna í þessum hluta eru: Coulisse Gallery og Andys Gallery frá Svíþjóð, C. C. C. og Lagune Ouest frá Danmörku og MELK og Van Etten Gallery frá Noregi.

Á hinni staðsetningunni, Liljevalchs Kunsthall, er i8, stofnað 1995, að kynna fimm listamenn. Galleríið teflir þar fram skúlptúr eftir Alicja Kwade, hringmálverki eftir Callum Innes, glerkúluskúlptúr eftir Ólaf Elíasson, naumhyggjulegan rúðuskúlptúr eftir Kristján Guðmundsson og smámálverk eftir Yui Yaegashi sem nýlega kom á mála hjá i8.

Market Art Fair er leiðandi samtímalistamessa á Norðurlöndum. Messan var stofnuð árið 2006 af galleríum af Norðurlöndunum: Danmerkur, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð og er orðin traustur samveru- og markaðsstaður í hjarta norræns listiðnaðar.

https://marketartfair.com/

Start

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Perpetual Motion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Um okkur