Opið fyrir umsóknir - myndlistarsjóður

09.01.2023
Blue box

Umsóknarfrestur fyrri úthlutunar úr myndlistarsjóði árið 2023 er til kl. 16:00 mánudaginn 20. febrúar. Hlutverk myndlistarsjóðs er að veita verkefnastyrki til undirbúnings verkefna og til að auðvelda framkvæmd verkefna á sviði listsköpunar og listrannsókna.

Hámarksupphæð styrkja getur verið allt að 3.000.000 kr. En lágmarksupphæð ekki undir 300.000 kr. Myndlistarsjóður veitir allt að 70% af áætluðum heildarkostnaði verkefna og því þarf umsækjanda að brúa 30% mótframlag.

Veittir verða styrkir í þremur flokkum:

  • Undirbúningsstyrkir: veittir til undirbúnings og þróunar viðamikilla verkefna sem síðar er hægt að sækja um styrk til framkvæmdar.
  • Sýningarverkefni: viðburðir sem fara fram á afmörkuðu tímabili með skilgreint upphaf og endi.
  • Útgáfustyrkir, rannsóknarstyrkir og aðrir styrkir: veittir til rannsókna á verkum íslenskra listamanna og til útgáfu rita um íslenska listasögu og verk myndlistarmanna auk annarra verkefna sem ekki falla undir aðra liði.

Í þeim tilvikum sem sótt er um styrk vegna sýningarraða eða samsýninga hvetur myndlistarráð skipuleggjendur til þess að senda inn eina umsókn fyrir verkefnið í heild í stað umsókna frá einstökum sýnendum. Ef þátttakendur velja að senda inn umsóknir fyrir sínu framlagi, þá er mælst til þess að ekki sé send inn umsókn vegna verkefnisins í heild.

Í umsókn er beðið um greinagóða lýsingu á verkefni, ferli þátttakenda, verkáætlun, kostnaðaráætlun og tilhögun fjármögnunar.

Vinsamlega athugið að myndlistarsjóður styrkir vinnu sérfræðinga, laun tæknimanna, efniskostnað, tækjakostnað, vef- og fjölmiðlakynningu, skráningu og ljósmyndatöku, hönnun og umbrot, prentkostnað og annað sem tengist verkefninu. Sjóðurinn styrkir ekki ferðalög, þóknun til listamanna, rekstur vinnustofu eða veitingar í tengslum við viðburði.

Hafi umsækjandi hlotið styrk úr sjóðnum áður, verður umsókn aðeins tekin til umfjöllunar ef greinargerð hefur verið skilað.

Umsóknir skulu vera á íslensku sé þess kostur, en annars má finna umsóknarform á ensku.

Leiðbeiningar um gerð umsókna, úthlutunarreglur, eyðublöð fyrir greinargerð ásamt lögum um sjóðinn er að finna hér.

Tilkynnt verður um úthlutun í marsmánuði.

Umsóknarformið: https://myndlistarsjodur.eydublod.is/Forms

Vistaðar eða innsendar umsóknir: https://eydublod.is/Account/LoginDouble

Myndlistarsjóður starfar samkvæmt lögum um myndlist 2012 nr. 64

Ef upp koma fyrirspurnir varðandi umsóknarferlið, vinsamlegast sendið tölvupóst á info@myndlistarsjodur.is

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, chromo
Dozie, Precious
Perpetual Motion
Islensku myndlistarverdlaunin 2023
Um okkur