Lost Manuals opnar í Künstlerhaus Bethanien

27.03.2024

Sýning Unu Bjargar Magnúsdóttur opnar í Künstlerhaus Bethanien 11 apríl næstkomandi í Berlín. Sýningin sem opnar 11. apríl markar lok eins árs vinnustofudvalar hennar við KB. Vinnustofudvölin veitti Unu aðgengi að öflugu, alþjóðlegu tengslaneti; sýningarstjórum, safnafólki, blaðamönnum og öðrum sem starfa innan geirans. Auk þess hefur Bethanien haldið utan um sýningarhald, útgáfu og ýmsa viðburði fyrir hana. Una Björg hugsaði til baka um árið sem að hún hefur dvalið í Berlín og sagði okkur hvaða merkingu vinnustofudvölin hefur haft fyrir hana. Hún ræddi við okkur hvernig hún hefur notið þess að búa og starfa þar og hvað hún sé þakklát fyrir meiri tíma til einbeita sér algerlega að sinni vinnu. 

Una sagði okkur sjálf frá sýningunni:

“Sýningin mun skoða hvernig eftirlíkingar spegla fyrirmyndir sínar og velta upp tilgangi þeirra. Við getum skoðað það á grundvelli samkenndar, eftirlíkingar, tvífara, eða rætt um eiginleika felulita - getu þeirra til að hylja eða sýna eftir hentugsemi. Einhversstaðar mætir maður vonandi kjarna, þótt erfitt geti reynst. Til að mynda er enn tekist á um hvað gerist ef kameljón er sett á yfirborð spegils - mun skinn dýrsins taka að flökta í óvissu eða mun það sýna okkur sitt rétta sjálf? Á sýningunni verða bæði skúlptúrverk og myndverk. Sum verkin fela sig í augsýn áhorfandans með því að ganga að mörkum hins tvívíða og þrívíða og skapa þannig sjónhverfingu um hvað er í raun og veru í rýminu.”

Una Björg er fædd árið 1990 og starfar í Reykjavík. Hún nam myndlist við Listaháskóla Íslands og stundaði framhaldsnám við ÉCAL í Sviss þaðan sem hún útskrifaðist 2018. Una Björg vinnur aðallega með skúlptúr. Hið ofurkunnuglega birtis oft í verkum hennar, gjarnan sem skúlptúrískar sviðsmyndir sem líkja eftir raunveruleikanum með augljósu gervi. Þannig endurgerir hún fábrotinn hverdagsleikann með óvæntum munum, hljóðum, myndum og ilmum.

Una Björg Magnúsdóttir, Treacherous Silver Sheen, 2023.

Una Björg Magnúsdóttir installing Treacherous Silver Sheen, 2023.

Still from an interview with Una Björg. Produced by Künstlerhaus Bethanien.

Dvölin er fjármögnuð af Menningar- og viðskiptaráðuneytinu og Viljandi, minningarsjóði.

Styrmir Örn Guðmundsson dvaldi á vegum verkefnisins í Künstlerhaus Bethanien 2020-2021, myndlistarkonan Elín Hansdóttir  dvaldi í Bethanien fram til vors 2022 og síðast var það hún Anna Júlía Friðbjörnsdóttir sem dvaldi þar 2023. Næsti listamaður til að fara verður Steinunn Anna Mörtudóttir.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Perpetual Motion
Um okkur