Hið andlega sem sameiningartákn jaðarhópa

21.05.2024
Giulia ANDREANI, La scuola di taglio e cucito, 2023, Giardini

Feneyjartvíæringurinn er haldinn í 60 skipti í ár og er þema og titill hátíðarinnar Ókunnugir alls staðar (e. Foreigners Everywhere). Á samsýningum sýningarsvæðanna Arsenale og Giardini sem og í skálum þjóða er því víða varpað ljósi á fólksflutninga en einnig á hefðir og lifnaðarhætti innfæddra hvers lands. Þá nýta listamenn trúarhætti og hefðir í myndlistinni sem er til sýnis á Tvíæringnum til þess að skilgreina upplifun þeirra og auðkenni sem part af ákveðnum þjóðarhópi eða samfélagshópi. 

Einnig vekur athygli að dulspeki og trú á hið andlega var oft nýtt sem mótíf í listaverkum einstaklinga sem kljást við erfið umfangsefni um einkenni og upplifanir. Svo virðist sem erfiðar upplifanir og óréttlátir veruleikar jaðarsettra einstaklinga í raunheiminum geta leitt til þess að fólk sækist meira í dulspeki og andlega heiminn. Hægt er að draga þær ályktanir að það sé gert til þess að flýja raunheiminn, en að mínu mati er það leið til þess að sækjast í sálarró og  tilraun til þess að ná æðri meðvitund og að jarðsetja sig. 

Frá unga aldri hefur trú á hið andlega fylgt mér og verið mér samofin. Hún hefur verið mér stoð í úrvinnslu á áföllum og sérstaklega sorg. Ég sækist í dulspeki og allt það sem viðkemur henni og hef gert frá því að ég var barn. Verkin hér að neðan drógu mig að sér af einmitt þeirri ástæðu. Þar má sjá nokkur dæmi af Tvíæringnum þar sem skoðað er hvernig jaðarsettir hópar nýta dulspeki sem sameiningartákn.

Ochirbold AYURZANA, Discovering The Present From The Future, (2024). Mongolian Pavilion

Ochirbold AYURZANA, Discovering the Present From the Future (2024), Mongolian Pavilion

Ochirbold Ayurzana og sameinuð Mongólía

Mongólski skálinn er staðsettur fyrir utan inngang Arsenale. Það fyrsta sem blasir við þegar gengið er inn í hann er stór beinagrind úr áli sem svífur í loftinu og starir beint á áhorfandann. Upplifunin magnast með góðri rýmisnýtingu þar sem það virðist sem beinagrindin skríði út úr veggjum og hornum rýmisins í áttina að þér.

Beinagrindin er innblásin af goðinu Citipati úr búddisma (mongólska: Durtoddagva). Hún er áminning til okkar manna um hverfulleika lífsins og mikilvægi þess að efla andlega leit að æðri meðvitund og uppljómun. Markmið listamannsins Ochirbold Ayurzana er að brúa bilið milli núins og framtíðar með fornum trúarhefðum búddisma og speki þeirra. Að mínu mati höfða þessi sterku skilaboð eflaust betur til einstaklinga með betri þekkingu á þessari trúariðkun. Tilfinningin að standa fyrir miðju í mongólska skálanum með augnaráð beinagrindarinnar á þér, var ókunnug, ég var aðskotahluturinn. Það var líkt og ég hafi gengið óumbeðin inn á trúarlega athöfn.   

Með þessu er Ayurzana ekki einungis að nýta dulspeki í nútímalegu samhengi heldur einnig mynda sterka tengingu við land sitt, Mongólíu. Landið öðlaðist sjálfstæði frá Kína árið 1946 og er innri Mongólía ennþá undir stjórn Kína. Með því að nota mongólskar hefðir horfir hann inn í framtíðina til veruleika þar sem Mongólía er sameinuð á sama tíma og hann tekur tillit til fortíðar landsins sem nýlenda.

Liz COLLINS, Rainbow Mountain Moon, 2024, Giardini

Liz COLLINS, Rainbow Mountain Moon, (2024). International exhibition at Giardini.

Liz Collins og hinsegin útópían

Á samsýningu Giardini undir sýningarstjórn Suður-Ameríska sýningarstjórans Adriano Pedrosa má finna nokkur önnur verk sem kanna tengsl dulspeki við listræna tjáningu. Umlykjandi vefnaðarverk bandarísku listakonunnar Liz Collins sýna dimm fjalllendi þar sem úr þeim spretta litríkir regnbogar. Verkin eru bjartsýn og veita innblástur meðal áhorfenda. Undirliggjandi í verkunum er ákveðin sigurtilfinning sem fyrirfinnst eftir erfiða baráttu.  

Í listaverkunum veltir Collins fyrir sér möguleikanum um hinsegin útópíu og dregur frá sinni eigin upplifun að vera hinsegin sjálf. Seinustu ár, í kjölfar Covid heimsfaraldsins, hafa skref verið tekin afturábak í réttindum hinsegin einstaklinga, þá sérstaklega trans einstaklinga sem og annarra jaðarhópa. Upprisa í öfga hægri pólitík hefur haft í för með sér aukna hómó- og transfóbíu. Verk Collins staðsetja sig sem jákvæða mótárás gegn þessu hatri, áminning til áhorfandans að hið góða stendur ávallt uppi sem sigurvegari.

Regnbogarnir spretta fram úr himninum og mynda beintengingu í huga áhorfanda við himnaríki um heim fjarri okkar dimma og gráa veruleika sem fylltur er af lit. Á einu vefnaðarverkinu má sjá hnött fyrir miðbik verksins. Innblásinn af mandölum, helgisið sem finna má í mörgum mismunandi trúarbrögðum, má draga þær ályktanir að hnötturinn sé sál Collins að fara upp á æðra stig, að fara í hinsegin útópíuna sem hún hefur dregið upp mynd af í verkum sínum. Tilhugsunin um annan veruleika þar sem allir eru samþykktir sama hvað er huggandi tilhugsun sér í lagi á tímum sem núna þegar allt virðist vera að fara aftur á bak. 

Giulia ANDREANI, Conservative Ghost, 2024, Giardini

Giulia ANDREANI, Conservative Ghost, (2024). International exhibition at Giardini.

Giulia Andreani og samband dulspeki við femínisma

Á samsýningu Giardini er hægt að finna málverk ítölsku listakonunnar Giulia Andreani. Við fyrstu sýn virðast þau vera gamlar, máðar ljósmyndir við fyrstu sýn en við nánari athugun sést að þetta séu olíumálverk máluð út frá ljósmyndum frá byrjun 20. aldar. Viðfangsefni málverkanna eru alls kyns konur sem sitja uppstilltar og prúðar í svarthvítum heimi og er líkt og að það sé að draga sálir þeirra úr líkömum þeirra. 

Með verkum sínum fjallar Andreani um sögulegt minnisleysi og tengingu dulspeki og hins andlega við femínisma. Verk hennar eru í samtali við sjálflærðu bresku listakonuna Madge Gill frá byrjun 20. aldar. Gill vann mikið út frá samstarfi við andlegan leiðsögumann að nafni Myrninerest og eru verk hennar úrvinnsla frá áföllum í lífi hennar sem og orsök hæfileika til þess að stíga inn í andaheiminn. Staðsett á móti málverkum Andreani á samsýningu Giardini er veggmynd eftir Gill, teiknuð í trélitum. Veggmyndin var gerð í andlegri leiðslu og sýnir andlit kvenna sem sprottið hafa djúpt úr undirmeðvitund listakonunnar og raddir þeirra sem hafa aðstoðað hana í gegnum persónuleg áföll. Einnig endurspegla andlit verksins andlit hinna gleymdu kvenna sem eru viðfangsefni verka Andreani.

Madge GILL, Crucifixion of the Soul, 1936, Giardini

Madge GILL, Crucifixion of the Soul, (1936). International exhibition at Giardini.

Með því að staðsetja verk þessara kvenna hvert á móti öðru er mynduð tenging á milli sögu og verka Gill við sögu kvenna í myndlist og aðgengi þeirra að listaheiminum með því að nota ljósmyndir af kosningabaráttu breskra kvenna. Andreani er bæði innblásin af sögulegri skráningu kvenskörunga þess tíma sem og listsköpun Gill, og kannar samband dulspekinnar, þess andlega, við femínisma sem birtingarmynd valdeflingar kvenna. Valdeflingin skilaði sér til mín sem konu. Að sjá andlit þessara gleymdu kvenna á  alþjóðlegu sviði líkt og Tvíæringnum og að gefa þeim raddir var mér mjög hvetjandi. Með því að endurspegla listakonuna Madge Gill sem notfærði sér andlega heilun í gegnum myndlist, er nánast eins og verk þessara tveggja kvenna séu að skapa vettvang fyrir aðrar konur í átt að heilun.

Andrés CURRUCHICH Cúmez, Procesión: patrón de San Juan está en su trono, 1966, Giardini

Andrés CURRUCHICH Cúmez, Procesión: patrón de San Juan está en su trono, (1966). International exhibition at Giardini.

Andrés Curruchich Cúmez og útbreiðsla kristni

Á samsýningunni í Giardini má einnig sjá málverk gvatemalska listamannsins Andrés Curruchich Cúmez sem kominn er af Kaqchikel ættbálknum. Málverkið fjallar um viðnám innfæddra við kristnitöku í kjölfar innrásar Spánar í Gvatemala. Málað í olíu, það sýnir augnablik í gvatemölskum hefðum.

Viðfangsefni málverksins eru konur og karlar að taka þátt í sumarhátíð Sankti Jónar, dýrlings San Juan Comalapa, fyrrum Kaqchikel borgar, sem fékk nýtt nafn eftir að landið varð spænsk nýlenda. Meðlimir ættbálksins eru í hefðbundnum mynstrum og klæðum ættbálksins við litrík altari tileinkuð dýrlingnum. 

Útbreiðsla kristnitrúar hjá innfæddum í Ameríku var lituð ágreiningi og þvingaðri aðlögun af hálfu nýlenduherrana sem sviptu innfædda landi þeirra og eyddu menningu þeirra og hefðum með skipulögðum hætti. Í dag iðka margir innfæddir Ameríkanar ákveðna gerð af kristinni trú sem innleiðir marga hefðbundna þætti úr menningu þeirra. Málverkið sýnir því að þrátt fyrir að innfæddir séu að taka þátt í kristinni hátíð þá eru þeirra upprunalegu trúir og hefðir það sem sameinar þau sem innfædda gvatemalska einstaklinga. Þó svo að hægt sé að skynja dapran undirtón verksins í líflausu augnaráði viðfanga þess þá fyrirfinnst einnig súrsæt bjartsýni í verkinu. Fögur, litrík alterin verka sem ákveðin áminning þess að trú er leið fyrir marga til þess að komast yfir áföll. Trúin sem að nýlenduherrarnir innleiddu til innfæddra var þeim einnig sem flótti frá áföllunum sem þau urðu fyrir barðinu frá þessum sömu kúgurum.

Þetta er fyrsti pistillinn frá Feneyjum um sýningar tvíæringsins þar sem fjallað er um meginstrauma og hugmyndir þar, spennandi þjóðarskála, óvissu samtímans. Titill aðalsýningarinnar er ,,Ókunnugir alls staðar’’ og er sýningastýrð af Adriano Pedrosa.

Nýútskrifaðir nemar frá myndlist í LHÍ og listfræði í HÍ, búsettir í Feneyjum í starfsnámi fyrir Íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum vinna að greinarskrifum og pistlagerð þaðan um lykilhugtök og þemu sýninga sem standa nú yfir þar.

Auður Mist, oftast kölluð Auja Mist, er 23 ára myndlistakona frá Reykjavík. Auja útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands af myndlistardeild árið 2023 og hefur síðan þá starfað sem listamaður í Reykjavík. 

Giulia ANDREANI, La scuola di taglio e cucito, 2023, Giardini

Giulia ANDREANI, La scuola di taglio e cucito, (2023). International exhibition at Giardini.

Ochirbold AYURZANA, Discovering the Present From the Future (2024), Mongolian Pavilion

Ochirbold AYURZANA, Discovering the Present From the Future (2024), Mongolian Pavilion

Liz COLLINS, Rainbow Mountain Moon, 2024, Giardini

Liz COLLINS, Rainbow Mountain Moon, (2024). International exhibition at Giardini.

Giulia ANDREANI, Conservative Ghost, 2024, Giardini

Giulia ANDREANI, Conservative Ghost, (2024). International exhibition at Giardini.

Madge GILL, Crucifixion of the Soul, 1936, Giardini

Madge GILL, Crucifixion of the Soul, (1936). International exhibition at Giardini.

Andrés CURRUCHICH Cúmez, Procesión: patrón de San Juan está en su trono, 1966, Giardini

Andrés CURRUCHICH Cúmez, Procesión: patrón de San Juan está en su trono, (1966). International exhibition at Giardini.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Perpetual Motion
Um okkur