Auður: Hvernig myndir þú lýsa sambandi þínu við list og sköpun?
Hvernig voru kynnin, var það ást við fyrstu sýn og hvernig er sambandið núna?
Tristan: Leið mín að myndlistinni lá í gegnum dans og myndbandagerð. Pabbi minn vinnur við kvikmyndagerð, svo ég fékk það einstaka tækifæri að vinna fyrir hann frá unga aldri, að klippa myndbönd og að taka upp á myndavélar. Þegar ég var tólf ára uppgötvaði ég dans og varð heilluð. Aðgengið sem ég hafði að græjum pabba míns gerði mér kleift að prófa mig áfram í myndbandagerð og ég byrjaði að gera vídeóverk á meðan ég var í Klassíska Listdansskólanum, samhliða framhaldsskóla. Eftir útskrift flutti ég til London og tók eins árs dansfornám og lærði svo dans á BA-stigi í Listaháskóla Íslands. Ég útskrifaðist þaðan árið 2013.
Út frá þessum miðlum: vídeói, gjörningum og dansi, fann ég leiðina að myndlist. Eftir útskrift jókst áhugi minn á þverfaglegum verkum. Þessir og fleiri þættir leiddu til þess að ég hóf nám við myndlistardeild LHÍ árið 2014, og útskrifaðist þaðan með BA gráðu árið 2017. Síðan útskrifaðist ég með MFA frá Listaháskóla Malmö árið 2021.
A: Hvernig hefur líkaminn sýnt sig sem tól í þinni listsköpun?
Hver var ástæða þess að þig langaði að gera líkamleg verk?
T: Sköpunarferlið mitt er eins og gjörningur. Ég samþætti líkama minn við listina og fæ innblástur frá persónulegri reynslu. Líkaminn er umdeildur og það vekur með mér áhuga. Þrátt fyrir að listferli mitt sé smá dulúðlegt þá er það líka leið fyrir mig til þess að nýta mér líkamann til þess að kljást við kynvitund, kynhneigð, líkamlega og andlega heilsu. Dansgráðan mín hefur reynst gagnleg í gjörningum. Hins vegar þarf ég að halda mér í góðu formi fyrir gjörninga því það getur verið berskjaldandi að koma fram. Ferlið er fullt af leikgleði og hvetur skapandi hugsun.
Árið 2019 framkvæmdi ég gjörning í Aþenu þar sem eitt smáatriði fór úrskeiðis, svo smámunasamt að enginn áhorfandi tók eftir því, en það var risastórt fyrir mér. Þegar ég kem fram fyrir áhorfendur eru öll skilningarvitin einstaklega skörp og skrúfuð í botn og neikvæðar hugsanir geta verið áfall. Eftir gjörninginn kom ég ekki fram á sviði í tvö ár. Það var ekki bara smáatriðið sem fór úrskeiðis sem kom mér í uppnám, heldur sú staðreynd að ég hafði ekki undirbúið mig nógu vel andlega. Gjörningurinn var sérstaklega krefjandi og innihélt líkamlega takmörkun og algjöra afhjúpun. Verk mín innihalda oft þætti sem eru líkamlega heftandi, eins og 10 kílóa sílíkon hafmeyjusporð eða líkkistu úr áli, þannig að þessa dagana reyni ég að vera varkár og ganga úr skugga um að ég sé fullkomlega undirbúin. Eftir hvern gjörning legg ég mikið upp úr eftirmeðferð fyrir andlega heilsu.
A: Hvernig var leiðin aftur að gjörningum?
T: Hún var í gegnum tónlist og með því að gera myndbandsverk, eins og í upphafi listferils míns. Ég gerði nokkur verk í þeim dúr áður en ég kom aftur fram fyrir áhorfendur. Að koma fram á tónleikum hefur verið leið fyrir mig til þess að æfa mig í rólegra og þægilegra umhverfi. Tónleikar eru einnig vettvangur fyrir mig til þess að prufukeyra nýjar brellur, brandara og nálganir. Áhorfendahóparnir geta verið gjörólíkir, stundum kem ég fram fyrir sitjandi áhorfendur sem hafa ekki græna glóru um hvað þau séu að horfa á. Þegar það gerist reyni ég að ná til þeirra og virkja þau. Það má nálgast fólk á óteljandi vegu og ég nýt mín í tilraunamennskunni.
A: Hvernig upplifir þú andstæðurnar og tenginguna á milli umheimsins og þíns innra heims?
Hvernig sýnir það sig í listsköpun þinni?
T: Ég fæ mestan innblástur frá viðvarandi tilvistarkreppu. Með því að nota sjálfa mig, drauma mína og langanir í bland við menningarlegar staðalímyndir, skapa ég listaverk sem túlka okkar mannlegu galla.
Samband mitt við hundinn minn hefur haft djúpstæð áhrif á mig. Tristan lést á seinasta ári og ég tók nafn hans sem mitt eigið. Við vorum óaðskiljanleg í tólf ár, hann var samferðarfélagi minn og barnið mitt í einum chihuahua hundi. Áður en ég hafði lesið eitthvað til þess að móta hugmyndir mínar, fann ég fyrir djúpri sorg að geta ekki lifað lífi mínu samferða honum eins og mér þótti eðlilegt. Hugleiðingar um mennska yfirburði gagnvart dýrum og um það að dýr séu einungis aukahlutir í okkar heimi, notuð fyrir okkar neysluhyggju, urðu að áhrifamiklum viðfangsefnum í listsköpun minni og hafa mótað mínar eigin skoðanir.
Svo er það kynjakerfið. Ég hef verið að kanna sambandið milli dýra og manna og setja það í samhengi við hinsegin femínisma og hugleiðingar um kvenleika, oft með því að nota minn eigin líkama sem miðil. Það eru einnig persónulegar ástæður fyrir því að ég vinn með þessi málefni. Meðal annars upplifun mín af því að vera í „kvenkyns“ líkama og að vera með endómetríósu. Allir þessir þættir; mennskir yfirburðir, blóð, líkamlegt sjálfforræði, kapítalismi, poppkúltúr og kvikmyndir, hafa orðið að mikilvægum og áhrifamiklum tilvísunum í listsköpun minni.
Má þar nefna að fyrir um tíu árum, meðan ég var í náminu, fjölluðu mörg verka minna um hvernig kvenleikinn er táknaður. Ég mátaði kvenleikann á sjálfri mér eins og ég væri að máta mismunandi flíkur; hagaði mér og klæddist hlutum sem voru ekki ég. Seinna áttaði ég mig á því að ein ástæðan fyrir þessu væri að ég er kynsegin, eitthvað sem ég vissi ekki að væri valkostur þá.

Tristan Elísabet Birta, Work Girl Play (2016), myndband.
A: Þannig að myndlist hefur verið leið fyrir þig til að kanna hinseginleikann og kynvitund þína?
T: Algjörlega, en myndlistin leiddi mig á útúrdúra á meðan ég var í námi. Andar fyrstu bylgju femínista hafa ávallt ásótt mig og veitt mér innblástur. Útúrdúrinn kom frá því að reyna að skilja þessi mótandi áhrif. Í gjörningum hef ég leikið hlutverk sem ég tengi ekki endilega við og það hefur kennt mér hvað fólki finnst óþægilegt og er óvant. Það er eitthvað við kvenleikann og kvenkyns líkama sem vekur upp sterk viðbrögð hjá fólki.
A: Hvenær hefur þú sýnt andspyrnu í þinni listsköpun?
T: Það er hægt að túlka verk mín á marga vegu, túlkunin fer eftir samhenginu og áhorfandanum. Ég hef gaman af því að púsla tilvísunum saman án þess að þær verði augljósar, dulúðin er mikilvæg. Sumir hafa efast um mikilvægi verka minna og spurt mig hvort að samfélagið sé ekki búið að þróast frá myndlist sem fjallar um femínisma og kvenlíkamann. Aðrir hafa sagt að listin mín sé ekki nógu grótesk. En það er einmitt málið. Mögulega er andspyrnan sem ég hef sýnt, að ég neita að sleppa hlutunum og greini allt í kringum mig.
A: Hvað um önnur viðbrögð við verkum þínum?
T: Eftir gjörninga eða sýningar hefur fólk komið upp að mér og sagt mér hversu hugrökk þeim þyki ég vera, sem hefur ruglað mig í rýminu. Með því að kalla mig hugrakka eru þau að staðfesta að það fyrirfinnst einhvers konar áhætta í verkum mínum. Að koma fram fyrir aðra er í sjálfu sér viðkvæmt og berskjaldandi, jú, og hugrakkt, en ég held að það sé ekki það sem þau meina.
Sumum finnst verkin mín hugrökk af því að það er ekki gefið að þeim verði vel tekið. Þau gætu svert mannorðið mitt eða látið mig koma heimskulega út. Mögulega áttar fólk sig ekki á því og finnst verkin skilvirk og hugrökk, í allri einlægni. Hins vegar, staðfestir það söguheim verka minna. Fyrir mér, er ég með skilaboð sem ég verð að koma á framfæri. Listsköpun mín er ein stór tilraunastarfsemi og leikur, prófraunir og villur.
A: Ertu með sérstakt verk í huga sem framkallaði þessi viðbrögð?
T: Mörg, en ég hugsa sérstaklega um einkasýninguna mína, Mythbust, í Kling&Bang árið 2022. Þar framkvæmdi ég gjörning í líkkistu úr áli og lék karakter að nafni Cindercat, kven- og kattarblending sem beið eftir eftirlífinu til þess að fara í eftirpartí. Titill verksins var Read Me My Rites (2022). Cindercat er blanda af goðsögum um ketti og ofurfemínisma. Ég var undir áhrifum frá birtingarmyndum kvenleika á fimmta áratugnum, Disney-myndinni um Öskubusku og einnig frá ömmu minni sem er hálfgerð vampíra.

Tristan Elísabet Birta, Read Me My Rites (2022), gjörningur í Kling&Bang gallery.
Annað verk í sýningunni var Interview with a Notorious Wildcat (2021), vídeóinnsetning um viðtal á milli myndavélarinnar sem er spyrillinn, og viðmælandans sem er blendingur af manneskju og lynx ketti. Viðfangsefni viðtalsins er reynsla blendingsins af eigin líkama. Persónan var innblásinn frá strippdansi og Gildu frá 6. áratugnum. Hún talar um freistingar og skammarlega persónulega reynslu þess að vera í óstöðugum og síbreytilegum líkama.
Þriðja verkið á sýningunni var vídeóverk titlað Demonstration (2022). Verkið fjallar um samband mæðgna, leikið af mér og móður minni. Í verkinu frjóvgar dóttirin sjálfa sig með ómennsku sæði og verður ólétt. Að lokum deyr hún vegna fylgikvilla meðgöngunnar. Vídeóverkið sýnir móðurina rannsaka hvað kom fyrir dóttur sína, og kemst að lokum að því að dóttirin vildi breyta ættlegg sínum og sínum mennska líkama. Henni mistekst og hún deyr, en reynir aftur með því að ásækja móður sína sem draugur. Myndbandið endar á því að móðirin umbreytist í skrímsli.
Þegar ég lék frjóvgunaratriðið í Demonstration, setti ég matarsprautu inn í mig. Það gæti verið ein ástæðan af hverju fólki finnst ég vera hugrökk. Í Interview with a Notorious Wildcat gætu ástæðurnar verið margar. Í stað þess að ráða leikara eða dansara til að leika öll þessi hlutverk, leik ég þau sjálf því það er eins konar meðferð fyrir mig.
A: Sem kynsegin listamaður, hvernig aðgreinir þú muninn á einkalífi þínu og listinni? Er einhver greinarmunur?
T: Sem flytjandi er listin mín oft persónuleg. Ég fæ innblástur frá mismunandi eiginleikum af sjálfri mér og þegar ég blanda persónulegum þáttum við ytri utanaðkomandi þætti í listsköpun minni myndast persónur eða myndlíkingar. Þannig þótt hlutar af verkunum séu persónulegir, þá eru þau líka skáldskapur.
Óskýru mörkin milli þess persónulega og myndlistar heilla mig, sérstaklega í samhengi við samfélagsmiðla. Ef Tristan er klikkuð heima, er það þá gjörningur? Ég hef gaman af því að leika mér með þessar óskýru línur, sérstaklega því ég get ekki alltaf gert greinarmun á þeim sjálf.
A: Hver er sköpunarrútínan þín?
T: Það fer eftir því hvernig verk ég er að skapa; sýningar án gjörninga og tónleikar eru gjörólík. Ef ég er að koma fram, þá er það versta sem gæti gerst, að ég sé enn að setja upp verk og leysa tæknileg vandamál þegar það er kominn tími til að hefja gjörninginn. Undirbúningstíminn er mikilvægur, ég þarf að fara í gegnum andlegt ferli til þess að komast í karakter, ekki bara hita upp líkamlega.
Í gjörningunum mínum hjálpa innsetningarnar sem ég skapa í kringum þá eða sýningarrýmin sjálf, mér að komast í karakter. Til dæmis get ég ekki orðið Cindercat fyrr en ég er komin inn í állíkkistuna.
Fyrir mér er andlegur undirbúningur mikilvægastur. Líkamleg upphitun er auðvitað mikilvæg, en það er nauðsynlegt fyrir mig að komast í sérstakt andlegt ástand. Núna skil ég af hverju sumir flytjendur verða að dívum. Áður en ég kem fram næ ég ekki að inntaka mikið af upplýsingum og á það til að verða fjarverandi, en það er því að ég er að vernda andlegt ástand mitt.
A: Hvað finnst þér vera áhrifamesta verkið þitt hingað til?
T: Mögulega útskriftarverkið mitt frá LHÍ, gjörningur titlaður On all fours (2017). Ég endurbyggði gamalt færiband frá fiskverksmiðju og skreið á því í 25 mínútur í senn á meðan sýningunni stóð. Í náminu hafði ég verið að búa til verk sem vísaði til kynferðislegra og hlutgerða perspektíva á kvenkyns/dýralíkama. Í verkinu On all fours vildi ég sýna líkama snauðan af þessum tilvísunum og leyfa hugmyndafræðinni að gerast í huga áhorfandans. Verkið vitnar í náttúrulífsmyndir og er að einhverju leyti innblásið af Eadweard Muybridge og uppruna þess þegar vísindi mættu kvikmyndum. Verkið snerist um að horfa á líkamann í gegnum linsu.

Tristan Elísabet Birta, On All Fours (2017), útskriftarverk úr LHÍ, gjörningur í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur.
Ég hef áhuga á mismunandi innbyggðum linsum sem fólk skoðar líkama í gegnum. Linsur byggðar á vísindum, kvikmyndum, poppmenningu eða fjölmiðlum. Ég vildi auðkenna þessar linsur, og undirstrika hvernig tækni, myndavélar, gluggar, skjáir og færiband móta upplifun okkar á líkömum. Áhorfendur horfðu á gjörninginn í gegnum glugga eða á skjá. Þau horfðu á þessa „hreinu“ mynd: Mann- og dýrslegan líkama skríðandi á færibandi.
Túlkun verksins fór eftir bakgrunni hvers og eins. Til dæmis; barn og einhver sem horfir reglulega á klám gætu hafa átt mjög mismunandi upplifanir á verkinu. Barni gæti hafa fundist verkið fyndið, einungis séð manneskju að leika dýr, á meðan einhverjum öðrum fundist það kynferðislegt eða niðurlægjandi.
Hins vegar, er uppáhalds verkið mitt hingað til Interview With the Notorious Wildcat. Sköpunarferlið var mjög töfrandi og skemmtilegt. Ég valdi vin minn, listamanninn Billie Meiniche, sem rödd viðmælandans og ferlið var mjög skemmtilegt. Þó að verkið sé þungbúið, er það líka smá skondið.
A: Vitnar þú í stelpuna/unglinginn innra með þér þegar þú skapar list?
T: Ávallt. Innblásturinn sem ég fæ frá eigin reynslu í sköpuninni minni er stór hluti af því að skilja sjálfa mig. Konkret dæmi um það er að ég hef notað mikið af myndböndum frá barnæsku minni. Vegna starfs pabba míns er til mikið af heimateknum vídeóum sem ég og stóra systir mín, listamaðurinn Guðrún Tara, höfum notað í okkar listsköpun. Ásamt sjálfsuppteknu efni frá unglingsárunum. Fullt af vandræðalegum myndböndum af mér í herberginu mínu, að dansa eða leika og prófa mismunandi útgáfur af sjálfri mér. Ég hef breytt því efni í vídeóverk sem eru hvorki heimildarmyndir né skáldskapur, heldur eitthvað dularfullt þar á milli.
A: Hver er munurinn þegar þú notar eigin líkama í listsköpun þinni og þegar þú leikstýrir öðrum í gjörningunum þínum?
T: Undanfarin ár hef ég að mestu unnið með fólki sem tengist mér persónulega, til dæmis vinum. Ástæðan er sú að það er einfaldlega skemmtilegra. En það er líka meðferðarlegt, eins og þegar ég valdi mömmu mína sem „móðurina“ í Demonstration. Mér finnst þessi persónulegu tengsl áhugaverðari heldur en að velja einhvern handahófskenndan.
Til dæmis, í Interview with a Notorious Wildcat valdi ég vin minn Billie til að vera bæði spyrill viðtalsins og myndatökumaðurinn. Hann fylgdi handritinu sem ég hafði skrifað, en hann tók sér líka það bessaleyfi að leika sér með karakterinn. Ein ástæða þess að ég valdi hann var út af dýnamíkinni okkar á milli. Fyrir verkið skapaði ég innsetningu þar sem ég tók hann upp á meðan hann tók mig upp og spurði mig spurninga. Upptökurnar eru af mér að leika fyrir hann, á meðan hann leikur fyrir mig. Ég klippti síðan allt efnið til að koma skilaboðum verksins áleiðis en líka svo að þessi leikandi hinsegin vinátta nái að vera skynjuð í gegnum skjáinn. Mér finnst það mjög einstakt.

Tristan Elísabet Birta, The Slippery Twist of the Tail (2023), gjörningur í Basement CPH.
A: Hverju spáir þú um framtíðarþróun listsköpunar þinnar? Hver verða næstu skref fyrir þig?
T: Ég spái fyrir um stærri og róttækari heima. Ég verð í Lissabon, Portúgal, næstu sjö mánuðina og kem aftur til Íslands og sýni í Gryfjunni, Ásmundarsal, næstkomandi september. Í Gryfjunni mun ég halda áfram með gjörninginn The Slippery Twist of the Tail (2023), sem ég sýndi fyrst í Kaupmannahöfn árið 2023. Verkið er húmorískt uppistand, þar sem ég leik hafmeyju í 10 kílóa skúlptúrsporði úr sílikoni.