Myndlistarráð tíu ára

12.12.2023
Asdis Spano portrett 1200

Á tíu ára afmælisári myndlistarráðs er vert að líta yfir farinn veg. Á tímabilinu hefur ráðið staðið að ýmsum veigamiklum breytingum og tekið þátt í að þróa myndlistarmenningu landsins. Á vormánuðum leit ný myndlistarstefna dagsins ljós en unnið hefur verið að stefnunni á síðastliðnum árum. Það voru því mikil gleðitíðindi fyrir íslenskt myndlistarlíf þegar þingsályktunartillaga Lilju Daggar Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um myndlistarstefnu til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi þann 10. maí síðastliðinn.

Hlutverk myndlistarráðs er skilgreint í myndlistarlögum nr. 64 frá árinu 2012. Hlutverk ráðsins samkvæmt lögunum er að vera ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni myndlistar, úthluta árlega styrkjum úr myndlistarsjóði og leita leiða til þess stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og myndlist þeirra bæði hér á landi og erlendis. Myndlistarráð stendur að baki íslensku myndlistarverðlaununum sem veitt voru í sjötta sinn á árinu og hafa skipað sér mikilvægan sess í menningarlandslagin. Markmið verðlaunanna er að heiðra íslenska myndlistarmenn og vekja athygli á því sem vel er gert á sviði myndlistar en jafnframt veita einstaka myndlistarmönnum mikilvæga viðurkenningu og hvetja til nýrrar listsköpunar. Þau hafa einnig það mikilvæga hlutverk að efla opinbera umræðu um myndlist og stuðla að kynningu á myndlist og myndlistarmönnum sem starfa á Íslandi. Sérstaklega skipuð dómnefnd ákveður tilnefningar, verðlaunahafa og viðurkenningar, en myndlistarráð tekur ákvörðun um hver hlýtur heiðursviðurkenningu árið 2024.

Annað mikilvægt hlutverk ráðsins er að efla alþjóðlegt samstarf íslenskra myndlistarmanna og stofnana. Ráðið tók þá ákvörðun á vormánuðum að veita styrk úr myndlistarsjóði til þess að styðja við alþjóðlega vinnustofudvöl listamanna í New York, International Studio & Curatorial Program (ISCP), en stuðningur við slíka dvöl veitir listamönnum aðgang að öflugu, alþjóðlegu tengslaneti. Einnig styður ráðið við tímaritið Myndlist á Íslandi sem er gefið út árlega, en það kom fyrst út árið 2021. Tímaritið stuðlar að aukinni umræðu um íslenska myndlist og hefur skapað sér mikilvægan sess sem góður vettvangur um myndlist hér á landi.

Myndlistarsjóður heyrir undir myndlistarráð og er eini opinberi sjóðurinn á sviði myndlistar hér á landi. Frá stofnun sjóðsins hefur myndlistarráð gætt þess að sjóðurinn nái að framfylgja þeim markmiðum sem honum voru sett, að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og kosta önnur verkefni er falla undir hlutverk og starfsemi myndlistarráðs. Sjóðurinn hefur veitt styrki til breiðs hóps fagaðila og stutt við fjölbreyttar sýningar listamanna, hátíðir, rannsóknir og útgefið efni um íslenska myndlist. Sjóðurinn hefur haft mikil áhrif á uppbyggingu myndlistarlífs í landinu og veitt listamönnum tækifæri til að starfa að myndlist sinni hér heima og erlendis.

Myndlistarsjóður hefur verið á fjárlögum frá setningu myndlistarlaga árið 2012 en til að byrja með þurfti að berjast fyrir tilvist hans. Framlag ríkisins í myndlistarsjóð var upphaflega 45 milljónir króna en niðurskurður fjárframlags í sjóðinn árið 2014 varð til þess að kalla þurfti til samstöðufundar. Óvissa um fjárframlög til sjóðsins ár hvert og niðurskurður í sjóðinn hefur valdið því að ekki hefur verið hægt að styðja við fjölmargar sýningar listamanna, rannsóknir, hátíðir og útgefið efni um íslenska myndlist. Myndlistarráð hefur lagt þunga áherslu á mikilvægi þess að sjóðurinn eflist og að framlög til hans verði aukin til jafns við verðhækkanir í samfélaginu.

Myndlistarráð hóf upphaflega að vinna að myndlistarstefnu árið 2015. Áður en hafist var handa við að móta drög að stefnunni vann ráðið viðamikla greiningu á starfsumhverfi myndlistar á Íslandi. Í framhaldinu lagði það tillögu fyrir ráðherra um stofnun verkefnahóps til að móta myndlistarstefnu sem bæði ráðuneytið og hagsmunaaðilar gætu sammælst um. Í október 2020 var stofnaður verkefnahópur, með fulltrúum frá Sambandi íslenskra myndlistarmanna, myndlistarráði, Listasafni Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, listskreytingasjóði, i8 galleríi og þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti, til að móta heildstæða stefnu um málefni myndlistar á Íslandi til ársins 2030.

Myndlistarstefnan er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda og fagvettvangs myndlistar í málefnum myndlistar. Fjögur meginmarkmið er að finna í stefnunni: að á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning, að stuðningskerfi myndlistar verði einfalt og skilvirkt, að íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein og að hún skipi alþjóðlegan sess. Lagðar voru til aðgerðir samhliða myndlistarstefnunni sem hafa það að markmiði að einfalda og styrkja stofnana- og stuðningskerfi myndlistar og hlúa að innviðum atvinnulífs greinarinnar ásamt því að efla útflutning og markaðssetningu á íslenskri myndlist. Myndlistarmiðstöð kemur að framkvæmd myndlistarstefnu í samstarfi við myndlistarráð. Lykilliður í aðgerðaráætlun myndlistarstefnunnar var stofnun nýrrar myndlistarmiðstöðvar sem tók við hlutverki Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar og fékk víðtækara hlutverk undir nýju nafni. Aukið hlutverk miðstöðvarinnar felst í stuðningi við og eflingu á myndlist innan lands og utan.

Augljóst er að margir sigrar hafa verið unnir í uppbyggingu á fjölbreyttri og kraftmikilli myndlistarmenningu á Íslandi. Hún hefur vaxið og dafnað á síðastliðnum árum og hefur vakið verðskuldaða alþjóðlega athygli. Myndlistarstefna og aðgerðaáætlun stjórnvalda til ársins 2030 skipar veigamikinn sess þegar horft er til framtíðar. Þar er gert ráð fyrir að myndlistarsjóður verði efldur og fái tækifæri til að styðja við enn fjölbreyttari verkefni á sviði myndlistar. Það er von myndlistarráðs að unnt verði að veita auknu fé í myndlistarsjóð á næstu árum til að efla getu hans til að stuðla að þeim fjölmörgu verkefnum sem stefnan kveður á um. Með slíkum stuðningi verður hægt að efla íslenska myndlist, jafnt á innlendum og alþjóðlegum vettvangi, og gera þeim sem starfa við myndlist auðveldara að vinna ný verk, setja upp sýningar og vinna að rannsóknum. Stuðningur úr myndlistarsjóði skapar einnig möguleika á þátttöku í alþjóðlegum samstarfsverkefnum og til að efla kynningu á íslenskri myndlist bæði hér heima og erlendis. Myndlistarsjóður er því mikilvægur grunnur að eflingu blómlegs myndlistarlífs á Íslandi.

Ásdís Spanó,

formaður myndlistarráðs.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5