Lokadagur sýningar Hildigunnar Birgisdóttur, myndlistarmanns, í íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum er sunnudagurinn 24. nóvember. Sýningin, "Þetta er mjög stór tala, (Commerzbau)", hefur staðið frá 19. apríl og fengið mjög góðar viðtökur. Sýningin verður sett upp í Listasafni Íslands í febrúar á næsta ári. Hildigunnur og Dan Byers, sýningarstjóri, hafa veitt fjölda viðtala á sýningartímanum og má sjá úrval þeirra á vefsíðu Myndlistarmiðstöðvar. Meðal annars birti Louisiana safnið í Danmörku viðtal við Hildigunni á hinum vinsæla miðli sínum Louisiana Channel og CHANEL Connects tók viðtal við hana í þekktum hlaðvarpsþætti. Á þessu sjö mánaða tímabili sem sýningin hefur staðið hafa íslenskir starfsnemar, listamenn og listfræðingar, gætt sýningarinnar, skrifað greinar um áhugaverðar sýningar á tvíæringnum og miðlað þeim í þættinum Víðsjá í Ríkisútvarpinu. Næsti tvíæringur í myndlist verður haldinn í Feneyjum árið 2026. Undirbúningur er þegar hafinn, verið er að undirbúa kynningu á listamanninum sem tekur við kyndlinum af Hildigunni. Tvíæringurinn í Feneyjum er einn mikilvægasti vettvangur samtímalistar á heimsvísu og það er mikill heiður fyrir þann íslenska myndlistarmann sem valinn er til þátttöku á tvíæringnum hverju sinni. Ísland hefur tekið þátt í Feneyjatvíæringnum frá árinu 1960. Myndlistarmiðstöð hefur umsjón með íslenska skálanum fyrir hönd Menningar- og viðskiptaráðuneytisins.
Feneyjatvíæringnum 2024 lokið
21.11.2024