Eygló Harðardóttir er myndlistarmaður ársins

04.03.2019
Íslensku myndlistarverðlaunin 2019 - merki

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti Íslensku myndlistarverðlaunin við hátíðlega athöfn í Iðnó fimmtudaginn 21. febrúar. Eygló Harðardóttir var valin Myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Annað rými, Nýlistasafninu.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Eygló Harðardóttir (f. 1964) hlýtur Myndlistarverðlaun ársins 2019 fyrir sýninguna Annað rými í Nýlistasafninu sem bar titil sinn með rentu. Með verkum sem í senn voru fínleg og stórkarlaleg, unnin í viðkvæman efnivið, opnaði listakonan fyrir gáttir sem áhorfandinn gat smeygt sér inn fyrir og aukið skynjun sína og næmi á kostnað hinnar vanabundnu rökhyggju.

Það er mat dómnefndar að öll helstu einkenni listakonunnar hafi komið fram á sýningu Eyglóar í Nýlistasafninu: ástríða fyrir myndlist, óheft sköpun, djúpstæð forvitni um virkni þess óræða, miðlun og kennsla sem felst í því trausti sem hún sýndi áhorfendum til þátttöku í sköpuninni.

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir sem Myndlistarmaður ársins 2019:

  • Eygló Harðardóttir fyrir Annað rými í Nýlistasafninu
  • Guðmundur Thoroddsen fyrir Snip Snap Snubbur í Hafnarborg
  • Hekla Dögg Jónsdóttir fyrir Evolvement í Kling og Bang
  • Steinunn Gunnlaugsdóttir fyrir Litla hafpulsan, Cycle Music & Art – þjóð meðal þjóða.

Leifur Ýmir Eyjólfsson hlaut Hvatningarverðlaun ársins fyrir sýninguna Handrit í D-sal, Listasafni Reykjavíkur.

Leifur Ýmir útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2013 og hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Hann er einn af listamannateyminu Prent & vinir sem hefur verið sýnilegt í íslensku listalífi undanfarin misseri.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Leifur Ýmir Eyjólfsson (f. 1987) hefur lagt sérstaka alúð við að tileinka sér tækni og aðferðir á borð við þrykk, ristur, stimpla og keramík. Hann hlýtur Hvatningarverðlaun ársins 2019 fyrir sýningu sína Handrit í D-sal þar sem hann leitar til baka til hugmyndar sem kviknaði á námsárum hans. Þá þegar var brennandi áhugi hans á bókverkagerð vakinn og hugmyndin var að gera blaðsíður úr brenndum leir sem hver og ein stæði sem sjálfstætt bókverk.

Það er mat dómnefndar að Leifi Ými takist með eftirminnilegum hætti að samþætta inntak og efnivið í sýningu sem fylgir áhorfandanum út úr safninu og inn í hvunndaginn þar sem hún heldur áfram að gerjast.

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir til Hvatningarverðlauna ársins 2019:

  • Leifur Ýmir Eyjólfsson fyrir Handrit í D-sal, Listasafni Reykjavíkur
  • Auður Ómarsdóttir fyrir Stöngin Inn í Kling og Bang
  • Fritz Hendrik fyrir Draumareglan í Kling og Bang

Í dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2019 sátu:

  • Aðalsteinn Ingólfsson (Listfræðafélag Íslands)
  • Hanna Styrmisdóttir (fulltrúi safnstjóra íslenskra myndlistarsafna)
  • Jóhann Ludwig Torfason (Samband íslenskra myndlistarmanna)
  • Margrét Kristín Sigurðardóttir, formaður dómnefndar (fulltrúi myndlistarráðs)
  • Sigurður Guðjónsson (Listaháskóli Íslands)

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Perpetual Motion
Um okkur