Á samsýningunni Algjörar skvísur í Hafnarborg í Hafnarfirði er megininntakið kvenlegar birtingarmyndir í goðsögum, þjóðsögum og í náttúrunni – táknmyndir eins og fjallkonan. Á sýningunni stígum við inn í ævintýraheim þar sem hið krúttlega tekst á við hið hræðilega, en raunveruleikinn er skammt undan.
Á Hamraborg Festival í Kópavogi, sem fram fer í 5. sinn, er Hamraborgin er í aðalhlutverki sem jarðvegur menningar og lista. Auk gjörningakvölds og fleiri lifandi viðburða standa sýningar til 5. september í ýmsum verslunar- og viðskiptarýmum í Hamraborg eins og í Euro Market, Krónunni og Polo Vape Shop. Ekki má gleyma stórri nýrri samsýningu í Y Galleríi.
Á samsýningunni Corpus í Gerðarsafni sýna listamenn úr ólíkum áttum og er umfjöllunarefnið líkaminn og líkamleiki í víðu samhengi og út frá mismunandi sjónarhornum; kynþáttum, kynjahlutverkum, umhverfi og náttúru. Þar má til dæmis sjá tveggja rása vídeóinnsetningu þar sem áhorfendur leggjast á gólfið og horfa á verkið í loftinu.
Sýningarstjóri Corpus, Daría Sól Andrews, hefur í nægu að snúast því hún stýrir einnig myndlistartvíæringnum Sequences í október. Þar kemur fram fjöldinn allur af innlendum og erlendum listamönnum. Þetta er stærsta samtímalistahátíð landsins og er orðin vel þekkt út fyrir landsteinana. Þemað í ár er hæglæti – fólk er minnt á að njóta augnabliksins og velta fyrir sér innri tíma verkanna ef svo má segja.
Aðalsýningarstaðirnir eru Kling & Bang og Nýlistasafnið í Marshallhúsinu og Norræna húsið, það verður bæði boðið upp á staðbundnar sýningar og svo gjörninga af ýmsu tagi. Sequences hefur ávallt tekist á við tímatengda myndlist.
Í Marshallhúsinu í i8 Gallerí á Granda verður um sama leyti sýnd um það bil 80 klukkustunda upptaka af gjörningi Ragnars Kjartanssonar í Moskvu þegar stóru safni þar í borg var breytt í myndver og teknir voru upp 87 þættir af bandarísku sápuóperunni Santa Barbara. Það voru rússneskir og úkraínskir leikarar, undir stjórn Ásu Helgu Hjörleifdóttur, leikstjóra, sem léku hvern þátt fyrir sig, einn þátt á dag og var leikurinn opinn áhorfendum. Þetta var allt tekið upp og verður nú sýnt í fyrsta skipti. Upptökum var hætt þegar Rússar réðust inn í Úkraínu en upphaflega stóð til að taka upp 100 þætti. Þættirnir eru á rússnesku með enskum texta.
Kristín Gunnlaugsdóttir verður með stóra og mikla einkasýningu nú í september í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum – í sýningarröðinni þar sem farið er yfir feril starfandi listamanna. Það kemur út bók með viðtölum og greinum um Kristínu og sýningin mun gera ferli hennar góð skil, en hún er einnig að vinna að fullt af nýjum verkum fyrir sýninguna.
Einn af hápunktum vetrarins í myndlist er sýning á verkum Steinu – Tímaflakk sem er samvinnuverkefni stóru safnanna tveggja, Listasafns Íslands og Listsafns Reykjavíkur.
Söfnin unnu síðast saman með þessum hætti fyrir 20 árum (Dieter Roth). Steina er ótrúlega stórt nafn í íslenskri listasögu án þess að fólk viti af því og spannar þessi sýning allan hennar feril, og verða sýnd fullt af verkum sem hafa aldrei verið sýnd á Íslandi. Steina er frumkvöðull í vídeólist og nýmiðlun í heiminum og hefur haft gríðarleg áhrif um allan heim. Verkin verða sýnd í 8 sýningarsölum í söfnunum tveimur, frá 4. október.
Þess má geta að í galleríinu BERG Contemporary við Klapparstíg er stór innsetning á verkum Woody Vasulka heitins, sem var eiginmaður Steinu. Verkið fjallar öðrum þræði um karllægar hugmyndir um eyðileggingarmátt vélarinnar. Þar stendur einnig yfir sýning á verkum Kristjáns Steingríms.
Arnhildur Pálmadóttir arkitekt sýnir verkið sitt, Lava Form, í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi, eftir áramót, verkið sem var sýnt á arkitektatvíæringnum í Feneyjum nýlega.
Í Listasafni Íslands verður eftir áramót meðal annars stór sýning á verkum myndlistartvíeykisins Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson – sýningin heitir Sjávarblámi og fjallar um hvali.
Á Akureyri verða þrjár nýjar sýningar opnaðar á Akureyrarvöku og þar sýna meðal annars Ýmir Grönvold og James Merry, sem er kannski þekktastur hér fyrir grímugerð sína fyrir tónlistarkonuna Björk Guðmundsdóttur.