Heiðursviðurkenning: Kristján Guðmundsson

Þegar litið er yfir rúmlega fimm áratuga feril Kristjáns er ljóst að gildi verka hans felst fyrst og fremst í vitsmunalegu inntaki þeirra og viðleitni listamannsins til að skapa nýja merkingu.

Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:

Þegar litið er yfir rúmlega fimm áratuga feril Kristjáns er ljóst að gildi verka hans felst fyrst og fremst í vitsmunalegu inntaki þeirra og viðleitni listamannsins til að skapa nýja merkingu. Verk hans eru fjölbreytt bæði hvað varðar efnistök og miðla en einkennast þó iðulega af kerfisbundnum vinnubrögðum og kímni. Hann hefur sýnt okkur formfegurð og einfaldleika í hversdagslegum hlutum og kannað á skipulagðan hátt möguleika miðilsins og efnisins sem hann vinnur með hverju sinni. Verk hans hafa átt þátt í að breyta afstöðu okkar til hlutanna og þar með breytt heiminum í kringum okkur. Kristján Guðmundsson á heiður skilið fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar.

Kristján er fæddur á Snæfellsnesi árið 1941 en uppalinn í Reykjavík. Hann er sjálfmenntaður í myndlist og hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1968. Ári síðar hélt hann sýningu í Gallerí SÚM og sýndi tímamótaverkið Environmental Sculpture o.fl., fyrstu innsetningu íslensks listamanns. Hann var einn af hvatamönnum gallerísins og virkur þátttakandi í SÚM-hópnum.

Í upphafi ferilsins nýtti Kristján hversdagslegan efnivið í forgengileg verk í anda alþjóðlegu flúxus-hreyfingarinnar sem lagði áherslu á að afmá mörk listar og daglegs lífs og tók listsköpunina ekki of hátíðlega. Með þessum verkum vakti Kristján nýjan skilning á myndlist hjá íslenskum áhorfendum og benti á nýja möguleika til að fjalla um samtímann.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Perpetual Motion
Um okkur