Hvatningarverðlaun 2023: Ásgerður Birna Björnsdóttir

Ásgerður Birna Björnsdóttir er handhafi Hvatningarverðlaunanna fyrir sýninguna Snertitaug í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi.

islensku myndlistarverdlaunin 2023-Asgerdur Birna Bjornsdottir-Photo: Gunnlöð Jóna

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Sýning Ásgerðar Snertitaug vakti verðskuldaða athygli. Sólarrafhlöður utan á safnbyggingunni knúðu myndbandsverk á LED skjám sem sýndu spírandi valhnetur og kartöflur. Birtuskilyrði og veðurfar stýrðu því hvernig sýningin birtist frá degi til dags. Bláar plastsnúrur sem fluttu raforku frá sólinni til tækjanna í innsetningunni héngu á veggjum salarins og kölluðu fram hughrif um lífrænar taugar. Einnig voru kartöflur og valhnetur að störfum við spírun í litlum plastvösum á veggjum og fylgdu sinni eigin köllun og hlutverki í hinni eilífu hringrás efnisins. Í hvítu rýminu bjó léttleiki og viss glaðværð, blönduð undrun og ugg, andspænis galdri náttúrunnar. Í verkinu var að finna beinan samruna hins lífræna og hins stafræna sem vakti áhorfendur til umhugsunar um það hvernig mörk þessara tveggja sviða verða sífellt óljósari. Að mati dómnefndar var sýningin áhrifamikil og virkni tækjanna og starfsemi lífveranna, sem á sér stað að stórum hluta handan beinnar skynjunar mannsins, beindi sjónum að grunneigindum lífs og vaxtar á jörðinni og oft á tíðum klunnalegra aðferða mannsins til þess að virkja þessa orku og stýra henni.

Ásgerður Birna Björnsdóttir: Snertitaug.Ljósmyndir Vigfús Birgisson

Tilnefningar 2023 - Ásgerður Birna Björnsdóttir - Snertitaug Ljosmynd: Vigfús Birgisson

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Perpetual Motion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Um okkur