Íslenski skálinn 2017

Egill Sæbjörnsson: Out of Controll in Venice

Sýningarstjóri: Stefanie Böttcher

Egill Sæbjörnsson, sem var valinn sem fulltrúi Íslands á 57. Feneyjatvíæringnum – La Biennale di Venezia, hefur látið listræna stjórn íslenska skálans 2017 í hendur Ūgh and Bõögâr, tveggja trölla sem nýverið gerðust listamenn. Verkið ber titilinn Out of Controll in Venice, og verður verkefni Ūgh and Bõögârs undir stjórn Stefanie Böttcher, sýningarstjóra og safnstjóra Kunsthalle Mainz í Þýskalandi.

Hver er við stjórnvölinn? Hver stýrir gjörðum okkar, þekkingu, hugsunum og jafnvel ímyndunarafli okkar? Hver nýtir sér hvað og hverja? Allt eru þetta spurningar sem Egill Sæbjörnsson veltir iðulega upp í verkum sínum. Hann glæðir hefðbundna hluti lífi í gegnum einstakan ímyndunarheim sinn með því að varpa á þá hreyfimyndum, ljósvörpunum og hljóði, veitir þeim rödd og einstaklingseðli sem undir öðrum kringumstæðum yrði annars ekki sjáanlegt. Þegar strokleður fer á flug, steinar byrja að syngja og handtöskur setja á svið dansverk, er hefðbundnum samböndum og stigveldum á milli hluta og hugmynda ögrað og þau endurskilgreind.

Á meðan Ūgh and Bõögâr kunna að virðast tilheyra stjórnlausum ímyndunarheimi, kemur með tímanum í ljós að eftir því sem við verjum meiri tíma með þeim í verkinu Out of Controll in Venice, þeim mun heildstæðari verður ímyndaður hliðarheimur þeirra. Tröllin eru nú þegar stór hluti af raunveruleika Egils: eftir að hafa hitt Ūgh and Bõögâr á Íslandi árið 2008, hafa þau fylgt honum alla tíð síðan. Þau hafa þar að auki gengið í listrænum fótsporum hans með því að deila með honum vinnustofu í Berlín, þar sem þau skapa verk og setja upp sýningar.

Out of Controll in Venice mun teygja sig lengra en inn í íslenski skálinn nær, bæði í tíma og rúmi. Allt frá þessari stundu fram að opnun Feneyjatvíæringsins þegar að sýningin opnar munu Ūgh and Bõögâr lauma sér inn í líf okkar – ekki einungis sem hluti af verki listamannsins, heldur munu sífellt fleiri smátt og smátt dragast inn í heim þeirra og upplifa þar hin ýmsu fyrirbæri, allt frá hugsunum tröllanna og list þeirra, yfir í tónlist og matarvenjur (þeim þykja manneskjur lostæti). Hápunktur upplifunarinnar – stærðarinnar þáttökuverk á Feneyjatvíæringnum 2017 – mun endurspegla bæði ánægjulegar og dökkar hliðar samvista Íslendinga við tröllin í gegnum árin og sýna hvernig einföld samskipti geta þróast í dýpri skilning, breytt viðhorfi okkar, hugmyndum og raunveruleika, auk sambands okkar við umheiminn.

Out of Controll in Venice er metnaðarfyllsta verk Egils Sæbjörnssonar hingað til. Án þess að veita því eftirtekt, förum við úr því að vera hlutlausir áhorfendur og verðum á endanum hluti af listaverkinu. Í stað þess að fylgjast með uppátækjum tröllanna, þá eru það við sem fylgst er með, í raun og veru. Frekar en að sækja í heim þeirra sem stendur á mörkum ímyndunar og raunveruleika, þá er verið að sjúga okkur inn í heiminn.

Stefanie Böttcher

Egill Sæbjörnsson (f.1973) býr og starfar í Berlín og Reykjavík. Í tilraunakenndri list sinni blandar hann saman tónlist, skúlptúrum, vídeóvörpunum og hreyfimyndum, oft við eigin gjörninga, ýmist sem búktalari, leikari, tónlistarmaður, ræðumaður eða söngvari, til að skapa skáldaðar frásagnir. Hversdagslegir hlutir lifna oft við í verkum hans með leikrænu, gáskafullu og jafnvel ljóðrænu ívafi, hvort sem um ræðir plastfötur, veggi, steina eða handtöskur, þar sem möguleikarnir eru endalausir og hið ímyndaða og raunverulega rennur saman. Verk hans og gjörningar hafa verið sýnd í Hamburger Bahnhof, Museum for Contemporary Art í Berlín, Frankfurter Kunstverein, Kölnischer Kunstverein, The Baryshnikov Art Center í New York, Oi Futuro í Rio de Janeiro, PS1 MoMA, Kiasma Helsinki og Museum of Contemporary Art Australia í Sydney. Sem dæmi um sýningar hans í galleríum má nefna: i8 Gallery í Reykjavik, Hopstreet Gallery í Brussel, Isabella Bortolozzi Gallery í Berlín og Johann König Gallery í Berlín. Egill var tilnefndur til Carnegie Art verðlaunanna árið 2010 og verk hans má finna á fjölmörgum opinberum listasöfnum og í einkasöfnum. Nýleg verk hans í opinberu rými eru Steinkugel, varanlegt opinbert listaverk fyrir Robert Koch Institute; auk Berlin and Cascade, ljósainnsetningar fyrir Kunstmuseum Ahlen í Þýskalandi. Árið 2011 vann hann að endurgerð verksins Einstein on the Beach eftir Robert Wilson, í samstarfi við Robert Wilson og Marcia Moraes. Egill hefur einnig gefið út þrjú bókverk samhliða sýningarhaldi og gefið út fimm hljómplötur. Egill Sæbjörnsson er einn af listamönnum Gallery i8.

Ūgh and Bõögâr eru 36 metrar á hæð. Þau elska að borða fólk, fela sig á bakvið byggingar og breyta sjálfum sér í nýja hluti. Þau eru grimmilegar verur, en er þau öll þar sem þau eru séð? Búa þau jafnvel yfir dulinni, mýkri hlið? Þegar þau hittu Egil fyrir nokkrum árum byrjuðu Ūgh and Bõögâr að taka eftir því að mannverur kunna hluti sem tröll kunna ekki. Það vakti forvitni þeirra og þau tóku að læra af Agli og öðluðust þannig ástríðu fyrir listum og ferðalögum. Ūgh and Bõögâr eru búin til úr duldum náttúruöflum og eru sjálfstæðar verur. Enginn veit hvaðan þau komu, hversu gömul þau kunna að vera eða hvernig þau komu inn í líf Egils. Frá og með þessari stundu eru þau einnig orðin hluti af þínu lífi, vegna þess að þú hefur lesið um þau.

Stefanie Böttcher (f.1978) er listfræðingur og sýningarstjóri. Hún hefur starfað sem safnstjóri Kunsthalle Mainz síðan 2015, þar sem hún hefur m.a. stýrt sýningunum On the Shoulders of Giants og Detail is all, auk einkasýningar líbanska listamannsins Rabih Mroué. Hún starfaði sem listrænn stjórnandi Künstlerhaus frá 2007 til 2013, þar sem hún stóð fyrir fyrstu einkasýningum ungra listamanna á borð við Lara Almarcegui, Ahmet Öğüt, Pilvi Takala og Kateřina Šedá í Þýskalandi. Hún hefur auk þess skipulagt viðamikil rannsóknartengd sýningarverkefni með Tim Etchells og Robert Kinmont. Árið 2013 veitti Goethe-Institut henni styrk til faglegra rannsókna í Serbíu, og sama ár stýrði hún samsýningunum 7 Ways to Overcome the Closed Circuit og 8 Ways to Overcome Space and Time í samstarfi við MoCAB safnið í Belgrad. Stefanie hefur einnig skrifað ýmsa texta fyrir sjálfstæða listamenn og um útópiíu hugtakið í tengslum við myndlist.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Perpetual Motion
Um okkur