Landnám

Pétur Thomsen

Pétur Thomsen, Landnám.

Athafnir mannkyns undanfarnar aldir hafa breytt heiminum svo mjög að talað er um nýtt jarðsögulegt tímabil: mannöldina (e. Anthropocene). Fólksfjölgun, tilkoma ofurborga, gríðarlegur bruni jarðefnaeldsneytis og rask á lífríki eru meðal þeirra þátta sem hafa leitt til mælanlegra loftslagsbreytinga og hlýnunar jarðar. Vegna þessara varanlegu áhrifa mannsins á lífhvolfið, jarðskorpuna, lofthjúpinn og höfin benda rannsóknir til þess að við séum kominn inn í tímabil sjötta aldauða lífríkis á jörðinni (það fimmta var þegar risaeðlurnar dóu út fyrir meira en 65 milljónum ára). Þá er þetta í fyrsta sinn í sögunni sem við stöndum frammi fyrir slíku aldauðaskeiði af mannavöldum.

Landnám er ljósmyndaröð sem Pétur Thomsen hefur unnið að í nokkur ár en serían hefur ekki verið sýnd í heild áður. Þar er sjónum beint að landsvæðum sem hefur verið raskað og breytt með einum eða öðrum hætti, til að mynda með landnýtingu, námavinnslu, skógrækt, jarðrækt og vegagerð. Ljósmyndirnar eru teknar að næturlægi en ljósmyndarinn lýsir landið upp með flassi til að afmarka sviðið. Við það fá myndirnar á sig vissan eftir-heimsendablæ, þar sem svartur himininn gefur til kynna yfirvofandi vá.

Mannöldin og hið yfirstandandi sjötta aldauðaskeið eru viðfangsefni einkasýningar Péturs Thomsen, Landnáms, í Hafnarborg. Þar verða sýnd ný ljósmyndaverk þar sem hinn rannsakandi eiginleiki ljósmyndamiðilsins er nýttur til að fjalla um áhrif mannsins á jörðina – hvernig maðurinn notar og nýtir land – sem og þau ummerki sem framkvæmdir mannsins skilja eftir sig í náttúrunni.

Pétur Thomsen (f. 1973) lauk MFA-prófi í ljósmyndun frá École nationale supérieure de la photographie í Arles, Frakklandi, árið 2004. Áður stundaði hann nám í frönsku, listasögu og fornleifafræði við Université Paul Valéry í Montpellier og listljósmyndun við École supérieure des métiers artistiques í sömu borg. Pétur hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar en árið 2004 hlaut hann til að mynda verðlaun LVMH-samsteypunnar sem þá voru veitt ungum listamanni í 10. sinn. Hann var svo útnefndur af Musée de L’Élysée í Lausanne sem einn af 50 ljósmyndurum sem líklegir væru til að setja mark sitt á ljósmyndasögu framtíðarinnar í verkefninu reGeneration: 50 Photographers of Tomorrow. Pétur býr og starfar í Sólheimum í Grímsnesi.

Listamaður: Pétur Thomsen

Dagsetning:

09.11.2024 – 16.02.2025

Staðsetning:

Hafnarborg

Strandgata 34, 220 Hafnarfjörður, Iceland

Merki:

HöfuðborgarsvæðiðSýningHjólastólaaðgengi

Opnunartímar:

Mánudagur12:00 - 17:00
ÞriðjudagurLokað
Miðvikudagur12:00 - 17:00
Fimmtudagur12:00 - 17:00
Föstudagur12:00 - 17:00
Laugardagur12:00 - 17:00
Sunnudagur12:00 - 17:00

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5