Parallel Dimensions
Karoliina Hellberg, Josefina Nelimarkka

Á sýningunni eru verk eftir finnsku listakonurnar Karoliinu Hellberg og Josefinu Nelimarkka sem taka mið af staðbundnu andrúmslofti Ísafjarðar og rými Gallerís Úthverfu. Sýningin er hluti af hátíðinni Við Djúpið og verkin eru unnin í samspili listakvennanna sem hófst í fyrstu sameiginlegri heimsókn þeirra til Ísafjarðar til að vera við tónlistarhátíðina á síðasta ári.
Fjölþætt innsetningin fer djúpt í lagskiptar sögur úr fortíðinni, samtímaveruleikann og ímyndaða framtíð sem koma saman inni í gallerírýminu og landslaginu umhverfis Ísafjörð; blanda saman dulúðugri fortíð og íhugandi víddum. Í málverkum, teikningum og glerskúlptúrum eru kannaðar tímabundnar og umhverfislegar breytingar – sem bjóða áhorfendum að endurhugsa tíma, rúm og hið ósýnilega.
Í málverkum sínum kannar Karoliina Hellberg fyrri líf byggingarinnar sem hýsir galleríið og mismunandi víddir þar sem draugunum sem eru grafnir í minningu rýmisins getur brugðið fyrir. Verk hennar eiga sér djúpar rætur í málverki og teikningum, sem geta einnig - auk málverka á pappír og striga - tekið á sig þrívíddar- eða textaform. Sjónin sem beinist að fortíðinni horfir einnig til mögulegrar framtíðar.
Josefina Nelimarkka býr til staðbundna fjölskynjunarinnsetningu úr handblásnu gleri, gagnvirku ljósi og veðurupplýsingum af svæðinu. Hún hefur áhuga á skyndilegum og viðkvæmum umhverfisbreytingum í landslagi Ísafjarðar og norðurslóðavídd hnattræns vatnsfars. Loftkennd og fínleg glerverk, bæði ljóðræn og efniskennd, fjalla um stað og stund og hvernig veður og upplifun verða ekki aðskilin. Sýningin kannar samhliða tilvist ólíkra en jafnframt samhliða fyrirbæra og atburða sem fá sjónræna lögun og lit.
Listamennirnir bjóða áhorfendum að víkka skynjun sína á tíma og rúmi í þeim tilgangi að flytja áhorfendur á vit ósýnilegra og ókortlagðra heima sem eiga sér stað hlið við hlið.
Listamenn: Karoliina Hellberg, Josefina Nelimarkka