Samt sem áður
Jóna Thors , Elín Þóra Rafnsdóttir

Elín Þ. Rafnsdóttir og Jóna Thors sýna málverk í Grafíksalnum.
Myndir Elínar Þóru á sýningunni eru allar olía á striga og unnar árin 2023 - 2024. Verk Elínar Þóru eru flest óræðar náttúrustemmur og landslag þar sem unnið er með áferð jarðar, árstíðir og gróður.
Elín sækir sér innblástur í íslenska náttúru og útivist svo og í kennslu en hún hefur um árabil kennt myndlist á framhaldsskólastigi. Í verkum sínum dregur hún upp óvæntar og óhlutbundnar hliðar á landslagi og náttúru og lætur tilfinningar ráða för í sköpunarferlinu. Þannig býr hún til óvænt sjónarhorn á myndefnið og veitir því nýjar víddir.
Að loknu fornámi í MHÍ 1978 lagði Elín áherslu á skúlptúr í Konunglegu dönsku listaakademíunni í Kaupmannahöfn og útskrifaðist 1982. Þaðan lá leiðin til Bandaríkjanna, þar sem hún tók masterspróf í höggmyndalist og grafík.
Fyrir Elínu Þóru eru málverkin tjáning forma, lita, efnis og myndbyggingar. Elín Þóra segir að í rauninni skipti hana ekki máli í hvaða miðil hún tjái sig heldur bara að fá að tjá sig og skapa.
Jóna nam við MHÍ ’77-’81, í fornámi og grafíkdeild, og ’87-´90 í leirlistardeild og hefur verið sjálfstætt starfandi listamaður frá útskrift. Hún var þátttakandi í rekstri Sneglu listhúss ásamt fleirum í 9 ár. Hún var einn af stofnendum Kaolín og starfaði með galleríinu í fjögur ár.
Árið 2020 kynntist Jóna aðferð við að mála með olíu og vaxi. Í framhaldi skráði hún sig í fjarnám hjá ColdWaxAcademy og stundaði það nám í tvo vetur.
Myndir hennar á sýninguni eru unnar með olíu og vaxi á viðarpanela og minni myndir á olíupappír. Innblástur Jónu getur komið frá ólíklegustu stöðum. Frá sjúskuðum trékassa, steyptum vegg, snjáðu verkfæri eða náttúrusýn, minningum og tónlist.
Listamenn: Jóna Thors , Elín Þóra Rafnsdóttir