Lucifer´s Commission

Woody Vasulka

Lucifer’s Commission er sería stórra prentverka sem Woody Vasulka gerði á árunum 1977-2003. Um er að ræða abstrakt verk sem eiga uppruna sinn í filmuprentuðum stenslum fyrir rafrásir sem listamaðurinn fann á ruslahaugum bandaríska hersins í Los Alamos. Hann skildi stenslana eftir utandyra og leyfði þeim að verða fyrir áhrifum umhverfisins í fjölda ára, en skannaði þá síðar inn og bjó til seríuna eins og hún kemur okkur fyrir sjónir í dag. Verkin bera því með sér undirliggjandi sögu hernaðar, loftslagsbreytinga, kjarnorkuiðnaðar og tæknilegs symbólisma, en undirstrika á sama tíma samband mannlegrar tilveru og hverfulleika miðla og minnis. List Woodys eru að mörgu leyti undir sýnilegum áhrifum af bakgrunni hans sem kvikmyndagerðamanns og verkfræðings, en í stað þess að nota vídeómiðilinn til frásagnar eða sagnamiðlunar lagði hann ríka áherslu á framþróun tæknilegra möguleika miðilsins sjálfs. Saman hafa hjónin Steina og Woody Vasulka skipað sér einstakan sess sem brautryðjendur innan vídeólistar á heimsvísu, en þau voru iðin við listsköpun sína allt frá sjöunda áratug síðustu aldar. Í gegnum þau margvíslegu tæki og tól sem þau þróuðu áttu þau þátt í að skapa sögu miðilsins, en rannsóknir þeirra á aðferðafræðum á borð við kóðun, endurgjöf og öðrum rauntímaáhrifum efldu nýja sýn á miðilinn svo um munaði. Einnig má geta sér þess til að djúpstæður áhugi Woodys á vélbúnaði umfram frásagnargleði endurspegli uppvöxt hans á eftirstríðstímum í Tékkóslóvakíu. Það er því þverfagleg tilraunagleði sem endurspeglast í prentunum sem hér eru sýnd og urðu til vegna áhuga Woodys og Steinu á stafrænum og hliðrænum ferlum, sem jafnframt staðsetur þau fremst meðal jafningja þegar kemur að aðferðafræði innan rafrænnar myndgerðar. Verk þeirra hafa verið sýnd víðsvegar um heim, þar á meðal í Whitney safninu í New York, Pompidou safninu í París, á Berlín Biennale, auk þess sem þeim hafa hlotnast ýmsar heiðursnafnbætur á ferli sínum, meðal annars frá Guggenheim safninu í New York og San Francisco Art Institute. Verk þeirra tilheyra mörgum af virtustu safneignum heims, má þar nefna Tate safnið í Bretlandi, MOMA safnið í New York, SFMOMA safnið í Kaliforníu, Whitney safnið í New York og Smithsonian safnið í Washington og mætti lengi áfram telja. Að lokum má nefna að síðastliðin tvö ár hefur MIT List Visual Art Center í Boston unnið að yfirlitssýningu á verkum Steinu sem opnaði þann 26. október síðastliðinn. Woody Vasulka lést árið 2019, en Steina Vasulka býr og starfar í Santa Fe í Bandaríkjunum.

Listamaður: Woody Vasulka

Dagsetning:

28.08.2024 – 30.11.2024

Staðsetning:

BERG Contemporary

Smiðjustígur 10 / Klapparstígur 16, 101 Reykjavík, Iceland

Merki:

MiðborginSýningHjólastólaaðgengiEnginn aðgangseyrir

Opnunartímar:

Þri – fös: 11:00 – 17:00 Lau: 13:00 – 17:00

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5