Misseri

Sirra Sigrún Sigurðardóttir

Sirra Sigrun Misseri Galleri skilti 2023

Verkið reynir að fanga eitthvað sem við öll þekkjum svo vel í okkar daglega amstri en talar einnig til stærra samhengis okkar, til síbreytilegrar stöðu okkar í himingeimnum þar sem við snúumst um ás á sporbaug um sólu. 

Misseri er í raun upplýsingaskilti þar sem vegfarendur geta glöggvað sig á sólarganginum, hvernig daginn tekur að lengja frá opnunardegi sýningarinnar þegar dagur er stystur og fram til bjartra sumarnátta við sumarsólstöður, sem er sama tímabil og sýningin stendur yfir. Verkið er prentað á endurskinsefni og vísar þannig til hversdagslegra vegvísa.

Verkið sýnir hvern dag tímabilsins, línu fyrir línu, bæði með litakóða og tölulegum upplýsingum í formfestu töflureiknis. Þannig teiknast sveifla möndulhalla jarðar upp á grafískan hátt og sýnir árstíðarsveiflu sólargangsins í Reykjavík. Litirnir tákna; dögun, dagbjart, sólarlag og myrkur. Mest áberandi litirnir eru; ljósblár fyrir bjartan dag og dökkblár fyrir myrkur, þar á milli raða sér rauðgulur, fjólublár og bleikur fyrir ljósaskiptin.

Orðið misseri merkir einfaldlega hálft ár eða sex mánuðir. Orðið ár var ekki notað áður fyrr og notuðu íslendingar svokallað misseristal þar sem árið samanstóð af tveim misserum. Í gamla misseristalinu eru árstíðirnar aðeins tvær, sumar og vetur, og hefst sumarið í apríl, en í tímatali stjörnufræðinnar er hins vegar miðað við sólhvörf. Telst þá vorið hefjast með vorjafndægrum, sumar með sumarsólstöðum, haust með haustjafndægrum og vetur með vetrarsólstöðum.

Verk Sirru eru kosmísk í eðli sínu og tengjast gjarnan inn á vangaveltur um stöðu okkar inni í gangverki náttúrunnar, eðlisfræðinnar og þeirra afla sem halda heiminum gangandi. Þau framkalla oft stöðu okkar sem einstaklinga, vægi okkar og smæð þar sem hið smáa er sett í samhengi við það stærra og merking er yfirfærð frá einu fyrirbæri yfir á annað svo úr verður ný skynjun, ný sýn.

Sirra Sigrún Sigurðardóttir lauk BA námi frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og MA í Art Practice frá School of Visual Arts í New York árið 2013. Sirra hefur meðal annars haldið einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Hafnarborg og Kling & Bang og tekið þátt í samsýningum og verkefnum víða um heim, þar á meðal í Chinese European Art Center í Xiamen í Kína, Amos Andersons Konstmuseum í Helsinki í Finnlandi og í Tate Modern og Frieze Projects í London á Englandi. Sirra er einn stofnenda Kling & Bang í Reykjavík. Sirra var tilnefnd til Myndlistarverðlaunanna árið 2020 og hefur hlotið styrki og viðurkenningar úr listasjóðum Dungal, Leifs Eiríkssonar, Svavars Guðnasonar, Guðmundu Andrésdóttur og Guðmunduverðlaunin árið 2015. Sirra er dósent og fagstjóri við Myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

www.sirra.net

Listamaður: Sirra Sigrún Sigurðardóttir

Dagsetning:

21.12.2023 – 15.06.2024

Staðsetning:

Gallerí Skilti

Dugguvogur 43, 104 Reykjavík, Iceland

Merki:

HöfuðborgarsvæðiðSýning

Opnunartímar:

Alltaf opið

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Perpetual Motion
Um okkur