Sækja heim
Elín Elísabet

Ég geng um Álfaborgina í meira en klukkutíma, kannski tvo, áður en ég finn hvaða partur það er sem vill verða málverk í dag.
Ég þarf oft að setjast eða krjúpa til að horfa betur, ég þarf að sjá einstaklingana, ekki heildina, þarf að koma alveg upp að þeim. Þarf að sjá ekki bara gróðurbreiðu heldur hvert lauf og strá.
Sjá að mosinn er ekki bara grár heldur margslunginn. Sjá appelsínugulu blettina inni í gullmurublómi. Fluguna sem skríður inn í bláklukku. Biðukollu sem sleppir fræjum sínum einu af öðru. Fíflablöð gegnumlýst af sól.
Að sækja heim er að vera gestkomandi en finna svo óvænt að maður tilheyrir. Að sækja heim er að spyrja móana, urðirnar og lággróðurinn hvort þau vilji verða málverk. Með litum og orðum og langdvölum: sækja heim eftir heim eftir heim.
Elín Elísabet (1992) er myndlistarmaður og teiknari. Hún ólst upp í Borgarnesi en kom fyrst á Borgarfjörð eystri árið 2011 eftir að hafa af tilviljun fengið starf
í fiskverkuninni. Elín hefur allar götur síðan verið tíður gestur á Borgarfirði og gjarnan unnið að list sinni héðan. Hún hefur t.d. gefið út teiknuðu myndabókina Onyfir um Borgarfjörð og staðið ásamt Rán Flygenring fyrir lundaveldi í nafni Nýlundabúðarinnar í Borgarfjarðarhöfn.
Þetta er í þriðja sumarið í röð sem Elín opnar málverkasýningu í Glettu með málverkum sem eru máluð á Borgarfirði eystri í aðdraganda sýningarinnar. Þau eru nær öll úr Álfaborginni og ef vel er að gáð innihalda þau ljóðbrot: prentuð orð og vangaveltur, tengipunkta við staðinn.
Sýningin er styrkt af Menningarstyrk Múlaþings.
Listamaður: Elín Elísabet