Tóm

Spessi

Spessi

SPESSI er samtímaljósmyndari, fæddur árið 1956 á Ísafirði. 
Hann er einn af mikilvægustu sjónrænu annálahöfundum Íslands og hefur þróað mjög persónulegan tón í verkum sínum á um 35 ára löngum ferli, þar sem hann hefur fengist við að fanga raunveruleikann á hráan og afdráttarlausan hátt.

Ljósmyndaverk hans draga gjarnan upp mynd af því umhverfi er skapar ramma utanum tilveruna á hverju tímabili fyrir sig, portrett af fólki sem gjarnan er lítið sýnilegt en hefur mikilvægum hlutverkum að gegna í gangverki samfélagsins, hinn manngerða heim – nærveru mannsins og fjarveru – þar sem hávaði, þögn og tóm mætast. 

Þekkt eru ljósmyndaverk Spessa af hversdagslegum fyrirbærum á borð við bensíndælur í heildarverki hans Bensín (1999) og íbúðablokkum í heildarverki hans 111 (2018), sem hverfist um lífið í samnefndu póstnúmeri í Breiðholtinu í Reykjavík, svo og fólk er tengist þessum stöðum og aðstæðum og hefur Spessi nefnt að hann nálgist viðfangsefni sín sem hlutlaus áhorfandi.

Í verkum sýningarinnar TÓM varpar Spessi fram sjónarhornum á einangrun og víðáttu í Öræfum, þar sem hann hefur búið um tveggja ára skeið. Okkur er veitt innsýn inn í einstakan, myndrænan upplifunarheim hans í þessu sérstaka umhverfi, þar sem hann hefur fundið nýja nálgun, annarskonar sýn og átt í innra samtali við sjálfan sig. 

Fyrir bókverk Spessa, TÓM, sem Kind listbókaútgáfa gefur út nú á sýningartímabilinu, skrifar Ófeigur Sigurðsson rithöfundur um list hans: „Tómið er fullt af óorðinni merkingu, þrungið ósegjanlegum möguleikum; forspjall að sköpunarverki. Í upphafi var ekkert. Gras hvergi, segir Völuspá og kjarnar þar betur auðn alheimsins en nokkuð annað. Tíminn var ógirtur og ekki tekinn að líða. Hvergi var sandur né nokkurn sjó að finna. Engin jörð. Enginn himinn. Skugginn vart skugginn af sjálfum sér. Myrkrið án myrkurs, ljósið án ljóss.“

Um upplifun sína af búsetu í Öræfum segir Spessi flutninginn þangað frá fjölmennari stöðum hafa verið töluverða áskorun og að hrár kraftur náttúrunnar kalli á auðmjúka nálgun, þar sem „vindurinn og tómið haldast í hendur og vísa í tómið sem ég horfði inn í, þennan gráa sudda sem varð dekkri með hverjum deginum … tómið, sem ég upplifði í sálinni við að flytja svona afskekkt. Nú er verkið tilbúið, ég sé sjóndeildarhringinn; hinn eiginlega og sjóndeildarhringinn í sjálfum mér.“

Spessi stundaði nám í ljósmyndun við Akademie voor Beeldende Kunst (AKI) í Hollandi og lauk námi þar árið 1994. Hann hefur sýnt víða, bæði á Íslandi og erlendis, meðal annars í Þjóðminjasafninu, Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Listamiðstöðinni Hafnarborg og í listasöfnum og sýningasölum á Norðurlöndunum, Bandaríkjunum, Bretlandi, Póllandi og Þýskalandi.

Sýningin er studd af:
Safnaráði
SASS Samtökum íslenskra sveitarfélaga
Myndlistarsjóði

Opnunartímar Svavarssafns: 
Mán-fös: kl.09:00 - 17:00
Og eftir samkomulagi

Listamaður: Spessi

Dagsetning:

15.08.2025 – 27.09.2025

Staðsetning:

Listasafn Svavars Guðnasonar

Hafnarbraut 27, 780 Höfn í Hornafirði, Iceland

Merki:

AusturlandSýning

Opnunartímar:

Sjá vefsíðu

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5