Trú Blue

Rakel McMahon

Trú Blue

Elsti leikurinn – Fyrir Trú Blue Texti eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur. Þetta er gamall leikur.Að stökkva og finna að djúpið er bæði undir okkur og yfir okkur. Reginmuninn á löngun og þörf sjáum við á því hvernig þær búa sig undir stökkið. Í fljótu bragði líta þær eins út þar sem þær standa hlið við hlið á háum súlum. En þær eru ólíkar.  Löngunin horfir upp. Þörfin er niðurlút. Ég er ekki að segja að þær hatist en þetta er ómögulegt samtal því önnur virðist alltaf vera lífsógn við hina. Þörfin gnístir tönnum áður en hún stekkur ofan í djúpið, erindi hennar brýnt og nauðsynlegt. Löngunin miðar alltaf á sólina því fyrir henni er djúpið súrefnislaust myrkur sem kemur henni ekki við.Þær hnakkrífast. Lönguninni finnst þörfin aumkunarverð og leiðinleg því hana skortir leikgleði. Hún hæðist að henni og segir glottandi, þú hefur enga sjálfsvirðingu, það er dapurlegt. Þörfinni finnst löngunin léttúðug og óraunsæ. Þig skortir alla alvöru og dýpt, skammsýni er sjálfselsk. Þú ert eiginlega smá tilgerðarleg, og undirförul, segir hún skjálfrödduð. Þær eru báðar bara börn eins og ég og þú.Til að kanna enn betur muninn á löngun og þörf má skoða samband þeirra við skömmina, þá ævagömlu myrkrarveru. Hrum en ódrepandi, líttu á hendurnar, vísifingur er undinn og bólginn af því að benda og klóra sem er ekki heiðarlegt starf og hvar fékk hún þennan gyllta hring? Honum hefur hún stolið. Undir barðastórum og slitnum sólhatti eru ljósfælin augu sem sjá bara allt það ljóta. Löngunin stendur keik á snarpheitri súlunni og kann ekki að skammast sín. Þörfin hins vegar, hún viðurkennir skömmina eins og barn sem elskar fráhverfa móður. Þörfin finnur húðina á iljunum sviðna og á engra úrkosta völ en að stökkva ofan í djúpið og kæla sig. Þar kyssir skömmin þörfina á logbrennandi ennið.Þráin trónir yfir bæði lönguninni og þörfinni. Því það sem þörfin vill er að umbreytast í þrá. Það sem löngunin vill er líka að umbreytast í þrá. Þráin er samt ekki laus við meinlokur, þess vegna er hún hættuleg. En það er eitthvað ómótstæðilegt við hana. Okkur finnst það öllum. Líttu niður, þar er skömmin og hún veit oft sínu viti, segir þráin sposk við löngunina, talar eins og hún sé eldri en sjálf erfðasyndin og það er líka satt. Það þarf ekki að úthýsa skömminni með öllu þótt hún sé veran í myrkrinu. Þótt hún sé þéttur skuggi. Svo snýr þráin sér að þörfinni og bendir henni á að líta upp. Skugginn verður til í sólinni, skilurðu, það varst ekki þú sem bjóst hann til, segir hún. Að stökkva inn í glóhvítt ljósið og treysta á þína eigin litlu vængi. Að stökkva alveg ósynd ofan í djúpið. Það er svalandi að mæta smáfiskunum. Þegar þú samþykkir að skugginn er ekki þinn eigin tilbúningur hefurðu viðurkennt tilvist Guðs. Svona gerum við þetta og svo stökkvum við.Þetta er elsti leikur í heimi.

Listamaður: Rakel McMahon

Dagsetning:

06.07.2024 – 11.08.2024

Staðsetning:

Þula

Marshallhúsið, 101 Reykjavík, Iceland

Merki:

MiðborginSýningHjólastólaaðgengi

Opnunartímar:

MánudagurLokað
ÞriðjudagurLokað
Miðvikudagur12:00 - 17:00
Fimmtudagur12:00 - 17:00
Föstudagur12:00 - 17:00
Laugardagur12:00 - 17:00
Sunnudagur14:00 - 17:00

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Perpetual Motion
Um okkur