Um leið og þú lítur undan
Lilja Birgisdóttir

Suma daga vildi ég gjarnan setja vísifingur á sjálfið og njóta
aðeins fegurðar sem ég á að nafninu til. Vita nákvæmlega hvar
ég enda og heimurinn byrjar.
En sjálfið er túnfífillinn sem brýst upp úr viðjum malbiksins og
telur sig eiga erindi við sólina. Sjálfið er hverful mynd í
regnvatninu, stakur rammi sem við gengum næstum því
framhjá.
Aðeins í augum sem horfa af alúð lifnar heimurinn við, og enn
hefur mér ekki tekist að snerta án þess að vera snert. Allt sem
ég glæði lit málar innviði mína hispurslaust í sömu litum.
Við erum gerð úr öllu sem við gefum gaum. Samtímis sólin og
túnfífillinn, við erum fislétt þungamiðja í eigin skynveruleika.
Gjöful athygli er það eina sem ég á, að nafninu til.
Texti eftir Lilju Birgisdóttur.
-
Lilja Birgisdóttir (f. 1983) er myndlistarkona sem býr og starfar í Reykjavík. Hún vinnur með fjölbreytta miðla, þar á meðal ljósmyndun, gjörninga, myndbandsverk, hljóð og innsetningar. Hún nam ljósmyndun við Royal Academy of Arts í Den Haag og lauk því námi árið 2007. Árið 2010 lauk hún BA-námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands.
Síðan þá hefur Lilja tekið virkan þátt í rekstri Kling & Bang og var jafnframt ein stofnenda Endemis, tímarits um íslenska samtímalist, ásamt öðrum listakonum.
Lilja sameinar gjarnan ljósmyndir við ólíka efniviði eins og olíuliti, plastefni, plöntur og fundna hluti. Hún er meðlimur í listahópnum Fischersund, sem stofnaður var árið 2017 af systkinunum Ingu, Jónsa, Sigurrós og Lilju. Fischersund rekur ilmhús og sýningarrými í Reykjavík þar sen ilmur, sjónlist og tónlist mætast.
Nýlegar sýningar Lilju eru meðal annars Faux Flora, ásamt Fischersund, í National Nordic Museum í Seattle (2024–25), It’s Not You It’s Me í Þulu (2022) og Gróður í Berg Contemporary (2020). Árið 2024 vann hún með Ingibjörgu Birgisdóttur að sýningunni Hlutskipti / Fated í Þulu. Árið 2015 hélt hún einkasýningar hjá Rawson Projects í New York og Jacqueline Falcone B&B í Miami, auk þess tók hún þátt í NADA Art Fair í New York. Árið 2025 tók hún þátt í Market Art Fair í Stokkhólmi.
Meðal eftirtektarverðra eldri verkefna hennar er The Vessel Orchestra, opnunarviðburður Listahátíðar í Reykjavík árið 2013, sem hún vann í samstarfi við fimmtán skipstjóra við Reykjavíkurhöfn. Lilja hefur einnig unnið ljósmyndaverk fyrir tónlistarmenn á borð við Damien Rice og Sigur Rós.
Listamaður: Lilja Birgisdóttir