Künstlerhaus Bethanien
Árslöng vinnustofudvöl við Künstlerhaus Bethanien í Berlín
Íslenskt myndlistarfólki og myndlistarfólk sem hefur sterka tengingu við íslenskt listalíf getur sótt um árslanga vinnustofudvöl í Künstlerhaus Bethanien. Samkomulagið milli Myndlistarmiðstöðvar og gestavinnustofunnar er til fimm ára, frá 2020-2025. Auglýst er eftir umsóknum árlega á meðan á samstarfinu stendur. Næst verður tekið á móti umsóknum í ágúst 2024 fyrir dvöl frá maí 2025- maí 2026. Dvölin er fjármögnuð af Menningarmálaráðuneytinu og Viljandi, minningarsjóði.
Um gestavinnustofuna
Künstlerhaus Bethanien var stofnuð árið 1974, og er ein rótgrónasta og virtasta stofnun Þýskalands á þessu sviði. Að jafnaði starfa um 25 listamenn víðsvegar að úr heiminum við miðstöðina, sem býður upp á alþjóðlegt tengslanet og samstarf innan samtímamyndlistar.
Dvölin veitir listamönnum sem þar dvelja aðgengi að öflugu, alþjóðlegu tengslaneti; sýningarstjórum, safnafólki, blaðamönnum og öðrum sem starfa innan geirans. Auk þess heldur stofnunin utan um sýningarhald, útgáfu og ýmsa viðburði fyrir listamennina sem þar dvelja. Á meðan vinnustofudvöl stendur heldur hver listamaður einkasýningu á vegum Künstlerhaus Bethanien. Boðið er upp á einkavinnustofu sem er 40 m2 að stærð og fullan aðgang að verkstæðum og bókasafni. Listamaður hefur kost á því að búa á vinnustofunni óski hann þess, en þar er til staðar eldhúskrókur og rúm.
Umsóknareyðublaðið
Sótt erum styrk með því að fylla út rafrænt eyðublað. Eyðublaðið verður aðgengilegt þegar opnað hefur verið fyrir umsóknir.
Beðið er um eftirfarandi upplýsingar og gögn með umsókninni:
Kynningarbréf frá listamanni
CV
Portfolio
Greinar og fjölmiðlaumfjöllun ef við á
Stutt greinagerð á því hvernig listamaður hyggst nýta sér dvölina, markmið og væntingar.
Gert er ráð fyrir að efni sé eingöngu sent á rafrænu formi. Hægt er að senda vefsíðuslóðir, hlekki á myndbönd, pdf skjöl eða hvað sem hentar best.
Ef umsækjandi óskar þess er einnig heimilt að senda meðmælabréf með umsókn.
Athugið að öll umsóknargögn þurfa að vera á ensku.
Matsferli
Forval á umsóknum er í höndum fagráðs Myndlistarmiðstöðvarinnar, en lokaval á listamanni er í höndum Künstlerhaus Bethanien.
Áhersla er lögð á að bjóða listamönnum til dvalarinnar sem hafa verið starfandi í þónokkurn tíma og hafa áhuga á því að leita tækifæra utan landsteinanna. Gert er ráð fyrir að viðkomandi listamenn hafi sýnt á söfnum og viðurkenndum sýningarstöðum hérlendis og erlendis.