Form og jafnvægi
Søren West

Á sumarsýningu Listasafns Sigurjóns Ólafssonar er úrval höggmynda eftir danska listamanninn Søren West ásamt þeim skúlptúrum Sigurjóns sem Søren valdi til að kallast á við steinmyndir sínar.
Søren West á að baki langan og yfirgripsmikinn listamannsferil. Hann vinnur mestmegnis í granít og aðrar steintegundir og bætir oft við málmum og öðrum efnum. Á annað hundrað verka hans er nú að finna á opinberum stöðum, flest í Danmörku, en einnig á Ítalíu og í Þýskalandi.
Søren West hefur sýnt verkum Sigurjóns sérstakan áhuga og í grein sem hann ritar í sýningarskrá segist hann skynja næstum bróðurleg tengsl við þennan starfsbróður sinn sem hann þó aldrei hitti og á þeim sé 55 ára aldursmunur. Í aðdraganda sýningarinnar kynnti hann sér megnið af verkum Sigurjóns og valdi til sýningar léttari og opnari verk hans sem hann taldi að myndu kallast á við steinskúlptúra sína.
Søren West fæddist í Kaupmannahöfn 1963 og nam við Listaakademíið á Fjóni á árunum 1983−1988 og síðan Studio Corsanini í Carrara á Ítalíu. Frá 1995 hefur hann búið og unnið í Egeskov Mølle á Suður- Fjóni. Hann er félagi í BKF (Billedkunstnernes Forbund), Dansk Billedhuggersamfund og Félagi Suður-Fjónskra listamanna og hann var þátttakandi í vinnustofunni Gæsteatelier Hollufgaard í Óðinsvéum. Søren hefur haldið fyrirlestra og námskeið í dönskum framhaldsskólum og tvívegis hefur hann verið forstöðumaður höggmyndadeildar Listaskólans í Svendborg. Hann hefur haldið fjölmargar sýningar staðið að ýmsum skúlptúrverkefnum heimafyrir og erlendis, og talið er að 118 skúlptúra eftir hann sé að finna á opinberum stöðum, flestir þeirra eru í Danmörku, en einnig á Ítalíu og í Þýskalandi.
Søren West vinnur mest með granít og marmara og skeytir oft bronsi, stáli eða tré við steininn. Í verkum hans má finna fagurfræðilegar og kraftmiklar vangaveltur um jafnvægi og andstæður efnis og áferðar.
Listamaður: Søren West