Tímaréttingarlaglínur
Tumi Magnússon

Fjögurra rása myndbands- og hljóðinnsetning Tuma Magnússonar er verk í vinnslu frá því hann hóf að vinna að því árið 2021. Í verkinu koma fyrir fjórar upptökur af hversdagslegri, óreglulegri hreyfingu, sem framkalla á einhvern hátt hljóð og fela í sér einhverskonar iðju. Hverri hreyfingu innan kvikmyndarammans er umbreytt í tíma til þess að þær fái allar sömu tímalengd, nákvæmlega tvær sekúndur, og skapast þannig jafn og hægur taktur í allri innsetningunni er vísar til öndunar mannsins.
Tímanbreytingarnar hafa einnig áhrif á tónhæðina og mynda þannig eitthvað sem nálgast að verða laglína. Þegar allar fjórar rásirnar eru spilaðar saman skapast sérkennilegur, kakófónískur samhljómur – marglaga hljóðheimur sem er í senn framandlegur, kunnugur og áhrifaríkur.
Í verkinu leika mynd og hljóð jafn mikilvægt hlutverk. Hverri myndbandsvörpun fylgir hátalari sem staðsettur er nálægt hinni vörpuðu mynd á vegg svo að upplifunin sé sú að hljóð hverrar myndar komi beint frá henni. Í miðju rýmisins blandast hljóðin saman en þegar gestir hreyfa sig um í rýminu verða hljóðin aðgreinanleg á ný.
Tumi Magnússon (f. 1957) er meðal fremstu listamanna landsins og hefur í verkum sínum lengi kannað samspil myndar og hljóðs. Hann vinnur gjarnan með endurtekningu, takt og tímaskynjun og notar hversdagslega hluti og aðstæður til að skapa djúpstætt, skynrænt umhverfi er fær okkur til þess að skerpa eigin skynjun á okkar nánasta umhverfi.
Tumi er fæddur á Íslandi og býr í Kaupmannahöfn. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og AKI - Academie voor Beeldende Kunst í Hollandi. Hann hefur haldið yfir 60 einkasýningar og tekið þátt í töluverðum fjölda samsýninga í öllum helstu listasöfnum og listrýmum á Íslandi, svo og í Evrópu, Bandaríkjunum, Mexíkó, Uruguay og Nýja Sjálandi. Tumi var prófessor við Listaháskóla Íslands frá 1999 til 2005 og við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn frá 2005 til 2011. Tumi hefur unnið með flestalla miðla myndlistarinnar. Framan af kannaði hann þanþol málverksins og þróuðust verk hans frá málverkinu yfir í ljósmyndaverk, vídeó- og hljóðinnsetningar.
Listamaður: Tumi Magnússon